Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Vél togarans komin í gang

14.10.2016 - 10:45
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Vél togarans Gnúps GK er komin í gang að nýju og er skipið nú að draga inn akkerið. Togarinn mun því sigla sjálfur til hafnar, að sögn Gylfa Kjartanssonar, skipstjóra á Gnúpi. Gylfi segir enga hættu hafa verið á ferðum, þeim hafi tekist að stöðva rekið og hæglætisveður sé á þessum slóðum.

Fréttin hefur verið uppfærð

Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögrelguþjónn á Hvolsvelli sem er á svæðinu, segir að allt virðist ganga eins og í sögu.  Von var á dráttarskipi frá Vestmannaeyjum en ekki reyndist þörf á því eftir að vélin fór aftur í gang.

Talsverður viðbúnaður var eftir að tilkynning barst um að íslenskan togara ræki vélarvana að landi við Dyrhólaey um hálf tíu í morgun. Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út sem og lögreglan á Hvolsvelli og björgunarsveitir í Vestmannaeyjum og Vík. Áhöfninni tókst að stöðva rekið þegar skipið var aðeins um fjóra til fimm kílómetra vestur af Dyrhólaey þaðan sem skipið sést vel.

Samkvæmt tilkynningu frá Landhelgisgæslunni var ástandið eins tryggt og hugsast gat en 27 manna áhöfn er um borð. 

Tilkynning Landhelgisgæslunnar frá því í morgun:

Stjórnstöð LHG barst upp úr kl 0930 í morgun uppkall frá íslensku fiskiskipi sem statt var grunnt vestur af Dyrhólaey. 

Skipið átti í vélarvandræðum.

Samstundis var áhöfn þyrlu, björgunarsveitir Landsbjargar í Vestmannaeyjum og Suðurlandi auk dráttarskips frá Vestmannaeyjum kölluð út, þá var næsta skip við vettvang kallað til aðstoðar.

Fiskiskipið setti út akkeri sem heldur, veður og sjólag á svæðinu er gott.

Áætlað er að skip sem mun ráð við að draga fiskiskipið verði komið að honum um kl 1030.

 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV