Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Vel smíðað drama sem dregur fram hið mannlega

Mynd: Andið eðlilega / Andið eðlilega

Vel smíðað drama sem dregur fram hið mannlega

16.03.2018 - 09:22

Höfundar

Kvikmyndin Andið eðlilega á brýnt erindi hér heima fyrir jafnt sem erlendis, en efni hennar dregur fram hið mannlega sem passar ekki alltaf inn í svart-hvítan ramma laganna, segir Gunnar Theodór Eggertsson kvikmyndagagnrýnandi.

Gunnar Theodór Eggertsson skrifar:

Andið eðlilega, eða And Breathe Normally eins og hún kallast á alþjóðavísu, er ný íslensk kvikmynd og sú fyrsta í fullri lengd frá Ísold Uggadóttur, sem hefur annars getið sér gott orð fyrir stuttmyndir sínar. Titill myndarinnar, sem biður okkur að anda eðlilega, kallast á við ræðuna sem við erum vön að heyra fyrir flugtak: ef eitthvað kemur upp á, setjið á ykkur súrefnisgrímurnar og andið eðlilega. Þótt við sjáum aldrei inn í flugvél í kvikmyndinni snýst sagan um flugferð sem fer ekki eftir áætlun þegar flóttakonan Adja er stöðvuð á Keflavíkurflugvelli með falsað vegabréf og færð í varðhald. Hún er á leið frá Gíneu-Bissá til Kanada, en situr nú föst á Íslandi og bíður þess að mál hennar verði tekið fyrir og þar með að skorið verði úr um hvort hún haldi áfram ferðalagi til frelsis eða verði send aftur heim í óvissuna. Samhliða sögu flóttakonunnar kynnumst við einstæðri, íslenskri móður, Láru, sem er nýbyrjuð í starfsnámi sem landamæravörður og er jafnframt sú sem ber kennsl á fölsuð skilríki Ödju og verður þannig valdur að kyrrsetningu hennar. Kvikmyndin fylgir síðan konunum tveimur eftir og skoðar hvernig líf þeirra speglast á ýmsa vegu, þrátt fyrir ólíkar yfirborðsaðstæður, og hvernig tilveran tengir þær saman. Hlýðum á stutt brot úr stiklunni:

Í stiklunni hér að ofan heyrum við eina persónuna útskýra fyrir Ödju að „hún sé ekki í fangelsi, að minnsta kosti ekki með rimlum“ og sú setning er lýsandi fyrir kvikmyndina sem heild. Snemma í myndinni fer Lára með son sinn, Eldar, í kattaathvarf að bjarga kisu og drengurinn endurómar svipaða pælingu: „af hverju þurfa þær að búa í búrum?“ spyr hann og virðir kettina fyrir sér, en mamman hefur engin svör, því svona er þetta bara – rétt eins og skrifræðið gefur Ödju aldrei önnur svör, því svona er kerfið, þetta er hefðbundið verklag og það er alltaf einhver annar sem semur reglurnar. „Skrítið að þurfa að búa í búri,“ segir Eldar litli og fær að bjarga einni kisu, en búrin eiga sér margar birtingarmyndir og persónurnar eiga það sameiginlegt að búa í búrum af ólíkum stærðum og gerðum, hvort sem búrið er bókstaflegt eða táknrænt, búrið er eyja, bíll, fangelsi, flótti eða fátækt.

Í einu af upphafsskotum myndarinnar sjáum við flugvöll í bakgrunni og jarðveginn í forgrunni, landið þannig sett í fyrirrúm, að eiga sér heimili og samastað, og rétt eins og kötturinn í búrinu ber þetta merki um grípandi myndrænan stíl í Andið eðlilega. Myndatakan er hrá og raunsæisleg, en jafnframt táknræn og úthugsuð, í takt við handritið sjálft. Útlit myndarinnar er að miklu leyti í stíl við hráslagalegt veðrið – hér sést varla til sólar fyrir rigningunni og heyrist varla í kvikmyndatónlist fyrir rokinu, sem bæði endurspeglar innri spennu aðalpersónanna en er ekki síður raunsæisleg túlkun á íslensku veðri, og myndin nær að draga fram staðsetninguna og sviðsetninguna með skýrum dráttum, hvort sem það eru Suðurnesin á götum úti, eða þegar skyggnst er á bak við tjöldin hjá landamæravörðunum. Þetta er Ísland sem við sjáum sjaldan í bíó, eins fjarri sveitasælu og landslagsfegurð og hugsast getur, og umhverfið breytist í aukapersónu, eða að minnsta kosti í framlengingu á aðalpersónunum. En þetta er líka óvenjuleg og í raun nýstárleg sýn á Ísland hvað varðar söguefnið og Ísold tekur á erfiðum málum úr okkar samtíma sem gerir myndina bæði áhugaverða og mikilvæga, sérstaklega í ljósi þess að það er gert mjög vel.

Mynd með færslu
 Mynd: Andið eðlilega

Ákveðinn Ken Loach bragur svífur yfir myndinni og atriði þar sem Lára sníkir sér mat í Bónus minnti mig á svipaða senu úr I, Daniel Blake, sem er nú ekkert nema hrós, en þrátt fyrir sósíalrealismann sem einkennir myndina má finna nokkurs konar ævintýrablæ undir niðri sem birtist í því hvernig konunum tveimur er stillt upp sem tvíförum eftir því sem á líður, sagan tekur að vinda upp á sig og hliðstæðurnar verða sífellt skýrari. Þetta er áhugaverð blanda, en eina umkvörtunarefnið tengist þó þessu samspili ofurraunsæis og frásagnarformsins, því að einhverju leyti fannst mér á köflum eins og gjörðir persónanna fylgdu söguþræðinum eftir ákveðnum farvegi og stefnu, en ekki öfugt – að þráðurinn fylgdi persónunum - og nokkrar senur stungu mig aðeins hvað varðaði stökk í þróun sambands þeirra tveggja, til dæmis í tengslum við uppákomu í skóla, sem hefði kannski mátt dvelja við dálítið lengur.

En þetta eru aukatriði sem gleymast fljótt einmitt vegna þess hversu sterk tök leikstjórinn hefur á stílnum og ekki síst vegna leikkvennanna fyrir miðju, sem eru báðar tvær stórgóðar í hlutverkum sínum. Lára verður margslungin persóna í túlkun Kristínar Þóru Haraldsdóttur, stolt og breysk móðir sem lifir tvöföldu lífi og heldur uppi ólíkum grímum, bæði gagnvart samfélaginu og vinnunni en líka gagnvart syni sínum, Eldari, því hún gerir allt sem í valdi hennar stendur til að fela fyrir honum fátæktina. Þegar mæðginin þurfa að yfirgefa heimilið kallar hún það „óvissuferð“ og hún stendur í stöðugu stríði við fíkn sem erfitt er að kveðja. Babetida Sadjo sýnir líka stórleik í hlutverki Ödju, sem býr greinilega yfir erfiðri baksögu, sárum söknuði og ótta, en tjáir það mestmegnis óbeint. Það er ákveðið merki um góðan leik að geta tjáð tilfinningar án þess að færa þær í orð, en það er líka merki um góða kvikmyndagerð að koma á orðalausum tilfinningatengslum við áhorfendur, og hvað það varðar sameinast hæfileikar kvennanna þriggja – Babetidu, Kristínar og Ísoldar – í þeim fjölmörgu þöglu atriðum á milli Láru og Ödju.

Mynd með færslu
 Mynd: Andið eðlilega

Augnaráðið virkar eins og kaflaskiptingar í gegnum myndina, frá því að Adja sést fyrst í röðinni á flugvellinum og gerir sig eins eðlilega og hún getur frammi fyrir yfirvaldinu, sem leiðir til augntillitsins á milli hennar og Láru þegar Adja er sótt af vörðunum, aftur þegar þær mætast á götum úti, og svo framvegis í gegnum alla myndina. Hver sena full af spennu og togstreitu, þótt ekkert sé að gerast á yfirborðinu, hvert augnaráð þrungið merkingu; það væri hægt að skoða alla myndina í gegnum þöglar senur á milli aðalpersónanna og öðlast djúpan skilning á báðum án þess að heyra orð. Svipuð hófsemi er til staðar í samtölum og handritinu almennt, baksögum er útdeilt smekklega til áhorfenda, fortíðin birtist jafnt og þétt og Ísold forðast að troða upp á okkur upplýsingapakka, sem er hið besta mál – við fáum að púsla baksögunum saman, bæði hvað varðar fíkn og fátækt Láru, sem er ekki gert of mikið úr – kynningarsenan þegar kortinu hennar er hafnað í Bónus segir í rauninni allt sem segja þarf um persónuna – og fortíð Ödju er skiljanlega haldið leyndri lengi vel, birtist okkur helst í gegnum undarlegan minjagrip sem hún ber með sér í plastpoka.

En gleymum nú ekki að myndin er meira en bara dúett, því Patrik Nökkvi er líka mjög fínn í hlutverki sonarins, sem er burðarhlutverk innan sögunnar. Eldar litli er saklaus og yfirmáta kurteis drengur sem tekur öllu af stóískri ró og barnslegri einlægni og er jafnframt tengiliðurinn sem færir konurnar saman. Andið eðlilega er vel smíðað drama um vel valið efni sem dregur fram hið mannlega sem passar ekki alltaf inn í svart-hvítan ramma laganna. Ísold Uggadóttir hefur þegar hlotið leikstjórnarverðlaun í flokki alþjóðlegra dramatískra kvikmynda á Sundance-hátíðinni og myndin fékk einnig gagnrýnendaverðlaun FIPRESCI á kvikmyndahátíðinni í Gautaborg, enda mynd sem á brýnt erindi hér heima fyrir jafnt sem erlendis. Með öðrum orðum er hún tekin á flug og það verður gaman að fylgjast með ferðalaginu framundan.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Áhugavert að sjá einhvern næstum því gráta

Kvikmyndir

Skemmtilega dramatísk mynd sem iðar af lífi

Kvikmyndir

„Við erum alltaf að elta einhver kerfi“

Kvikmyndir

Gömlu góðu ófreskjurnar eiga alltaf erindi