Vel heppnuð alþjóðleg samvinna

Mynd: Benjah-bmm27 / Wikimedia Commons

Vel heppnuð alþjóðleg samvinna

30.03.2015 - 16:21

Höfundar

Fyrir 30 árum var undirritaður merkur samningur sem snýr að umhverfismálum. Þetta er Vínarsamningurinn um vernd ósonlagsins, og samkvæmt Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna er sá samningur eini alþjóðlegi samningurinn um umhverfismál sem fullgiltur hefur verið af öllum ríkjum heims.

Stefán Gíslason umhverfisstjórnunarfræðingur segir þetta einstakt dæmi um vel heppnaða samvinnu á alþjóðavettvangi. Hann fjallar um samninginn í Samfélaginu í dag.

Samfélagið mánudaginn 30. mars 2015

Pistill Stefáns

Sunnudagurinn 22. mars sl. leit ef til vill út fyrir að vera bara eins og hver annar sunnudagur. En þannig var það alls ekki, því að þetta var merkisdagur í sögu samstarfs um umhverfismál á alþjóðlegum vettvangi. Mig grunar að fáir Íslendingar hafi haldið sérstaklega upp á daginn, en oft hafa menn þó lyft glösum eða bakað tertu af minna tilefni. Sunnudaginn 22. mars voru nefnilega liðin 30 ár frá því að Vínarsamningurinn um vernd ósonlagsins var undirritaður í Vín í Austurríki. Þetta gerðist föstudaginn 22. mars 1985.

Vínarsamninginn um vernd ósonlagsins ber ekki oft á góma í almennri umræðu. Margir kannast hins vegar líklega við Montrealbókunina sem gerð var við samninginn haustið 1987, nánar tiltekið miðvikudaginn 16. september. Að því er fram kemur á heimasíðu Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna er Vínarsamningurinn með Montrealbókuninni eini alþjóðlegi samningurinn um umhverfismál sem fullgiltur hefur verið af öllum ríkjum heims.

Í stuttu og mjög einfölduðu máli skuldbindur Vínarsamningurinn aðildarríkin til að vernda heilsu manna og náttúrulegt umhverfi gegn skaðlegum áhrifum sem stafa af starfsemi sem getur breytt ósonlaginu. Með þessu voru ríkin í raun að taka á sig skuldbindingu til að draga úr framleiðslu og notkun ósoneyðandi efna. Í samningnum voru engin töluleg markmið hvað þetta varðar, en Montrealbókunin bætti úr því. Þar var tilgreint hvaða efni væri um að ræða og hvenær notkun þeirra skyldi vera komin niður fyrir tiltekin mörk. Þessi mörk voru svo hert 1990 og aftur 1992. Efnin sem um ræðir eru m.a. klórflúorkolefni og halónar, en í daglegu tali var oftast einfaldlega talað um freon og halon í þessu sambandi. Eins og margir muna var efni af þessu tagi m.a. að finna í ísskápum og frystikistum, úðabrúsum og slökkvikerfum, en nú hafa þau nær undantekningarlaust fyrir löngu vikið fyrir öðrum skaðminni efnum sem gera sama gagn.

Þeir sem vilja geta dregið ýmsan lærdóm af reynslunni af framkvæmd Vínarsamningsins og Montrealbókunarinnar, en óhætt er að fullyrða að þessi skjöl séu einstakt dæmi um vel heppnaða samvinnu á alþjóðavettvangi. Árangurinn endurspeglast ekki bara í því að öll ríki heims, eða réttara sagt öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna og nokkur til viðbótar, hafi fullgilt samninginn og bókunina, heldur talar tölfræðin líka sínu máli um það hversu vel hefur gengið að framkvæma það sem þarna var ákveðið. Á þeim 30 árum sem liðin eru hefur losun ósoneyðandi efna á heimsvísu dregist saman um 98% og áætlað er að árið 2030 verði árleg krabbameinstilfelli tveimur milljónum færri en þau myndi vera ef samningurinn hefði aldrei verið gerður. Þar er þá fyrst og fremst verið að tala um húðkrabbamein af ýmsu tagi, en ósonlagið sem allt þetta mál snýst um verndar jú jarðarbúa fyrir útfjólubláum geislum sólarinnar.

Þennan góða árangur af Montrealbókuninni er hollt að rifja upp í hvert sinn sem fulltrúar ríkja heims setjast niður og reyna að komast að samkomulagi um takmörkun á losun gróðurhúsalofttegunda. Vínarsamningurinn og Montrealbókunin sýna nefnilega að það er hægt að ná samkomulagi á heimsvísu og fylgja því eftir. Vissulega eru loftslagsmálin flóknari viðfangs vegna þess að þar hafa fleiri aðilar meiri hagsmuni af óbreyttu ástandi. En fordæmið er samt gott og til þess fallið að auka bjartsýni á að hægt sé að yfirstíga ýmsar hindranir. Og í þessu sambandi er allt í lagi að minna á að ekki liðu nema 11 ár frá því að þeir félagar Mario Molina and Sherwood Rowland uppgötvuðu ósoneyðandi eiginleika klórflúorkolefna þangað til búið var að skrifa undir Vínarsamninginn. Ef við berum þetta saman við gang mála í loftslagssamningunum, þá hefur sambandið á milli losunar gróðurhúsalofttegunda og hlýnunar loftslags verið þekkt í grófum dráttum frá því fyrir aldamótin 1900 og reyndar í enn grófari dráttum frá því fyrir miðja 19. öld. Verkefni þeirra sem setjast að loftslagssamningaborði í París í desembermánuði næstkomandi verður sem sagt að finna leiðir til að sigrast á vandamáli sem mannkynið hefur haft einhvern pata af í um það bil 170 ár en samt ekki tekist að leysa.

Ég nefndi áðan að þeir sem vilja geti dregið ýmsan lærdóm af reynslunni af framkvæmd Vínarsamningsins og Montrealbókunarinnar. Eitt af því sem fróðlegt væri að kynna sér í þessu sambandi eru viðbrögð Dana þegar ljóst var að draga þyrfti stórlega úr framleiðslu og notkun ósoneyðandi efna á mjög skömmum tíma. Þetta kom sér illa fyrir Dani til skamms tíma litið, því að þar í landi var framleitt mikið af kæli- og frystitækjum þar sem ósoneyðandi efni voru ekki aðeins notuð sem kælimiðlar heldur einnig og í mun meiri mæli við framleiðslu á einangrun í ytra byrði tækjanna. En í stað þess að berjast gegn óhjákvæmilegum breytingum, eins og sumum hættir til að gera í þessari stöðu, einsettu Danir sér að nýta tækifærið sem í þessu fólst til að ná forystu í að finna önnur skaðminni efni sem gerðu sama gagn og nýta þau í framleiðslunni í staðinn. Þetta kallaði á verulegan stuðning stjórnvalda við innlenda tækniþróun, sem meðal annars fólst í því að stjórnvöld skattlögðu ósoneyðandi efni og öfluðu þannig fjár sem var notað til að styðja við nýsköpunarverkefni til að þróa vörur án ósoneyðandi efna. Árangurinn varð sá að Danir náðu þeirri forystu sem þeir ætluðu sér og byggðu upp nýjan iðnað og ný atvinnutækifæri í samræmi við það.

Ég ýjaði að því áðan að loftslagssamningamenn gætu lært sitthvað af fordæmi þeirra sem lögðu grunninn að Vínarsamningnum fyrir 30 árum. Á sama hátt gætu hvaða þjóðir sem er, jafnvel smáþjóðir í norðurhöfum, reynt að draga einhvern lærdóm af viðbrögðum Dana við óhjákvæmilegum samdrætti í framleiðslu og notkun ósoneyðandi efna. Þegar menn standa frammi fyrir óhjákvæmilegri breytingu hafa þeir um tvennt að velja, annað hvort að stinga hausnum í sandinn og þykjast ekki sjá það augljósa, eða rétta úr bakinu, horfa fram og vera á undan öðrum að nýta tækifærin sem liggja í breytingunni.