Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Vel hægt að leyfa hommum að gefa blóð

04.10.2018 - 08:35
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Sóttvarnalæknir telur að vel komi til greina að leyfa samkynhneigðum karlmönnum að gefa blóð að undangengnu sex mánaða kynlífsbindindi. Reynsla og áhættumat annarra þjóða sýni að með vandaðri skimun blóðs sé lítil eða nánast engin hætta á blóðbornu smiti með slíku fyrirkomulagi.

Velferðarráðuneytið óskaði eftir mati sóttvarnarlæknis í sumar. Í sóttvarnarfréttum Landlæknisembættisins kemur fram að forsendur þess að samkynhneigðum karlmönnum verði leyft að gefa blóð að undangengnu sex mánaða kynlífsbindindi séu að mati sóttvarnalæknis þær að spurningar til blóðgjafa verði vandaðar og fyllsta trúnaðar gætt um svör. Þá verði rannsóknaraðferðir við skimun á öllu blóði fyrir HIV, lifrarbólgu B og C og sárasótt að vera áreiðanlegar og kostnaðarhagkvæmar. 

Frá næstu áramótum fá samkynhneigðir karlmenn leyfi til þess að gefa blóð í Danmörku, hafi þeir ekki stundað kynlíf með öðrum körlum í fjóra mánuði.  Unnsteinn Jóhannsson, alþjóðafulltrúi Samtakanna '78. segir það tímaskekkju að samkynhneigðum körlum sé enn óheimilt að gefa blóð á Íslandi. 

alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV