Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Vel fjármögnuð grunnþjónusta og stöðugleiki

14.12.2017 - 12:00
Mynd: Skjáskot / RÚV
Bjarni Benediktson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir að landsmenn finni vonandi fyrir því í nýju fjárlagafrumvarpi að grunnþjónusta sé vel fjármögnuð á sama tíma og lögð sé áhersla á stöðugleika og að halda verðbólgu lágri.

„Þetta er um 35 milljarða króna afgangur í þessu frumvarpi sem ég myndi segja að sé bara sterk útkoma fyrir ríkissjóð. Það dregur aðeins úr afganginum samanborið við frumvarpið sem var lagt fram í haust enda erum við að leggja til aukin útgjöld inn í innviðina,“ segir Bjarni í viðtali við Ægi Þór Eysteinsson fréttamann. Þetta birtist í hærri framlögum til heilbrigðismála og menntakerfisins, líka til máltækniverkefna og samgöngumála. „Þetta eru allt mikilvægir liðir sem ríkisstjórnin vill beita sér fyrir á sama tíma og við skilum myndarlegum árangri.“

Bjarni segir að Landspítalinn og sjúkrahús víða um landið verði styrkt og sömu sögu sé að segja af heilsugæslunni, skólum og vegagerð. Þarna sé verið að framfylgja þeim áherslum sem kynntar hafi verið í stjórnarsáttmálanum.

„Það sem er ánægjulegt við Landspítalann að við sjáum núna, sýnist mér í fyrsta skipti í einhver ár, að reksturinn er á yfirstandandi ári svona nálægt því sem sett var á fjárlögum. Því hefur verið lengi haldið fram að þingið hafi og ríkisstjórnir fyrri ára eitthvað vanfjármagnað Landspítalann miðað við þann vöxt sem er að verða í starfsemi hans.“ Nú sé að finnast jafnvægispunktur þar sem aukið fé sé sett í húsnæðismál, mönnun og tækjakaup auk uppbyggingar ákveðinna grunndeilda spítalans. Hann segir þó mikilvægt að halda til haga að heilbrigðisstofnanir úti á landi séu líka á lista yfir aðgerðir sem stjórnin vilji ráðast í.

„Við vonumst til þess að menn finni fyrir því að það sé verið að fjármagna vel þessa grunnþjónustu sem allir Íslendingar vilja að sé í lagi, þannig að aðgengi að heilbrigðisþjónustunni sé að lagi, að börnin okkar séu að fara í gegnum skólakerfi sem er vel fjármagnað, þar sem starfsfólkið hefur aðbúnað til að sinna sínum störfum og nemendur fá tækifæri til að láta til sín taka.“

„Hinn almenni Íslendingur held ég að hafi líka mjög mikla hagsmuni af því að okkur takist að halda hér verðbólgu lítilli og að hér verði áfram stöðugleiki,“ segir Bjarni.