Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Veitti 3.400 lán í Reykjanesbæ á 4 árum

06.07.2013 - 19:05
Mynd með færslu
 Mynd:
Íbúðalánasjóður veitti 3.400 lán vegna íbúðakaupa í Reykjanesbæ á árunum 2005 til 2009. Lánin námu 32 milljörðum króna og sjóðurinn hefur síðan þurft að leysa til sín fjölda íbúðanna.

Í september í fyrra átti Íbúðalánasjóður ríflega 500 íbúðir í Reykjanesbæ, metnar á 6,2 milljarða króna. 320 þeirra stóðu tómar. Um 250 voru upphaflega í eigu leigufélaga, verktaka eða annarra fyrirtækja, samkvæmt skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð. Bókfært tap sjóðsins vegna eignanna eru 3,4 milljarðar króna. 

Frá 2003 til 2010 fjölgaði íbúum í Reykjanesbæ um 3.000 en íbúðum talsvert meira eða um 3.500. Á árunum 2005 - 2009 veitti sjóðurinn um 3.400 lán til íbúðakaupa í Reykjanesbæ, þar af 900 til kaupa á nýjum íbúðum. Lánsfjárhæðin var um 32 milljarðar króna á þávirði. Sjóðurinn leysti svo til sín íbúðir vegna lánanna fyrir um 8,5 milljarða króna.

Lánaði milljarða þrátt fyrir aðvaranir

Árið 2007 veitti sjóðurinn lán til íbúðakaupa fyrir röska 6 milljarða króna. Þar af runnu 33% lánsfjárins til íbúða sem enduðu svo á uppboði. Hrunárið 2008 voru lánaðir 8,5 milljarðar. Sérstaka athygli vekur útlánagleði sjóðsins árið eftir hrun. Þá voru lánaðir tæpir 5 milljarðar. Þar af runnu 42% lánsfjárins til íbúða sem sjóðurinn eignaðist aftur á uppboði. 

Þetta var gert þrátt fyrir aðvaranir Magnúsar Árna Skúlasonar hagfræðings og ráðgjafa sjóðsins í skýrslu sem hann vann fyrir stjórn Íbúðarlánasjóðs um íbúðamarkaðinn á Suðurnesjum um mitt ár 2008. Þar segir að framboð íbúðarhúsnæðis í bænum sé gríðarlegt og ljóst að það verði að fara varlega í nýbyggingar svo offramboð myndist ekki með verðfalli og neikvæðum félagslegum áhrifum vegna auðra íbúða. 
Magnús benti á að fjöldi íbúða væri á söluskrá á svæðinu og sagði að í ljósi þessa sé æskilegast að klára byggingar sem verið væri að reisa og huga að sölu eða leigu þeirra frekar en að fara í nýframkvæmdir. Með því væri hægt að takmarka útlánatap Íbúðarlánasjóðs.