Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

„Veiðin að aukast og silungurinn lítur vel út“

26.03.2018 - 08:18
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Langt er síðan silungsveiði í Mývatni hefur verið jafn góð og um þessar mundir. Mývatnssilungurinn nánast hrundi fyrir nokkrum árum en virðist smám saman vera að ná fyrri styrk. Mývetningar vonast nú til að veiðitakmarkanir í vatninu verði rýmkaðar.

Vetrarveiðin í Mývatni hófst 1. mars, eins og undanfarin ár. Við fylgjum formanni Veiðifélags Mývatns út á vatnið til að vitja um net og og veiðin er góð. „Við erum með hérna í sameiningu, á Geiteyjarstrandarbæjunum, sex net niðri núna og veiðin bara mjög viðunandi. Þetta er eitthvað á þriðja tug sem kom upp núna,“ segir Helgi Héðinsson.

Jákvæð þróun síðasta áratuginn

En fyrir fáum árum var þetta ekki svona. Veiðin í Mývatni nánast hrundi á tímabili. Talsverðar veiðitakmarkanir voru settar á við vatnið, veiðitíminn styttur verulega meðal annars. Og þetta segja heimamenn við Mývatn að hafi borið góðan árangur. „Bleikjan hefur alveg verið friðuð fyrir sumarveiði í þó nokkur ár,“ segir Helgi. „Við sjáum það núna í vetrarveiðinni að það eru mjög jákvæð merki. Það er að aukast veiðin og silungurinn lítur ákaflega vel út.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson

Ekki langt síðan varla fékkst í soðið  

„Það eru ekkert mörg ár síðan þetta var þannig að það væri bara tvísýnt um hvort maður fengi 2-3 góðar bröndur í matinn. Og hafandi verið í Mývatnssveit núna á hverju ári í að verða 30 ár skynja ég jákvæða þróun núna síðasta áratuginn eða svo,“ segir Helgi.

Vonar að hægt verði að auka veiðina smám saman

Ástand silungsins í Mývatni er metið árlega og veiðin ákveðin út frá því. Og Helgi telur ástæðu til bjartsýni. Veiðin hafi aukist undanfarin 4-5 ár og síðust tvö ár hafi verið sérlega góð. „Við allavega bindum vonir við að það sem við erum að sjá núna verði til þess að við getum í litlum skrefum rýmkað aðeins veiðina,“ segir hann.

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV