Veiðimenn myrtu yfir 100 hirðingja í Malí

24.03.2019 - 01:45
epa03550331 A photograph made available by the French Army Communications Audiovisual office (ECPAD) on 22 January 2013 shows a Malian soldier taking part in operation Serval to push back the Islamist rebels, Diabali, Mali, 19 January 2013. Malian troops
Nokkuð róstusamt hefur verið í Malí síðustu misseri og vígamenn gert nokkrar mannskæðar árásir á ári hverju.  Mynd: EPA
Veiðimenn af Dogon-þjóðinni eru sagðir hafa myrt yfir 100 manns í þorpi Fulani-hirðingja í Bankass-héraði í Malí á laugardag. Harouna Sankare, bæjarstjóri næsta bæjar, segir að 115 hafi fallið í þorpinu Ogossagou. „Þetta var fjöldamorð Dogon-veiðimanna á óbreyttu Fulani-fólki,“ hefur tíðindamaður AFP eftir Sankare. Fólkið var ýmist skotið eða vegið með sveðjum að sögn ónefnds heimildarmanns úr hernum, sem sendur var á vettvang þegar fregnir bárust af blóðbaðinu.

Boubacar Kane, héraðsstjóri í Bankass, segir eftirlifendur í Ogossagou saka Dogon-veiðimenn um illvirkið. Ekki er útilokað að enn fleiri hafi fallið í árásinni, sem gerð var í dögun á laugardag. Ogossagou er nærri landamærunum að Búrkína Fasó, á svæði sem plagað hefur verið af mannskæðum átökum Fulani-hirðingja og Dogon-veiðimanna síðustu misseri. AFP hefur eftir sjónarvottum að þorpið hafi nánast verið brennt til grunna.

Sendinefnd skipuð fulltrúum Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna var í heimsókn í Malí þegar árásin var gerð. Meginerindi sendinefndarinnar er að kynna sér þá ógn sem stafar af vopnuðum íslömskum öfgasveitum á þessum slóðum.

Deilur hirðingja og veiðimanna snúast einkum um yfirráðasvæði, beitarland og veiðilendur og aðgang að vatni, en síðustu fjögur ár hafa vígasveitir íslamista látið á sér kræla á svæðinu. Þar fara fremst samtök sem leidd eru af öfgaklerkinum Amadou Koufa, sem hermt er að sæki vígamenn sína einkum í raðir múslímskra Fulani-manna. Það hefur kynt ófriðarbálið milli þeirra og Dogon-veiðimanna svo mjög, að það kostaði minnst 500 mannslíf í fyrra, samkvæmt upplýsingum Sameinuðu þjóðanna.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi