Veiðigjaldið mögulega afnumið á sumarþingi

Mynd með færslu
 Mynd:
Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins segir helgina hafa nýst vel til að ræða stóru málin í stjórnarmyndunarviðræðunum, til dæmis skuldamál heimilanna. Enn hafi þó ekki náðst saman. Til umræðu er að afnema sérstaka veiðigjaldið strax á sumarþingi.

Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins kom saman í Valhöll í dag en þar gerði Bjarni Benediktsson formaður flokksins grein fyrir stöðu stjórnarmyndunarviðræðnanna. Hann sagði að fundinum loknum að honum og Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni formanni Framsóknarflokksins hefði orðið verulega ágengt um helgina, meðal annars um skuldamál heimilanna.

Bjarni segir hins vegar ekki tímabært að úttala sig um það efni, vel hafi gengið með þá hluti sem unnið hafi verið með. Bjarni segir enn fremur að þeir hafi farið yfir hugmyndir beggja flokka. „Og ég tel að það séu bara ágætar líkur á því að við getum náð saman um leiðir í þessum málaflokki.“

Hann vildi hins vegar ekkert segja til um hvað verður gert, eða hvenær útfærsla verður kynnt. Ekki hefur verið rætt um skiptingu ráðuneyta en hann hafi rætt við Sigmund um að fá aftur sérstakan heilbrigðisráðherra. Niðurstaðan í því verði kynnt þegar að því kemur. En hann ítrekar að þeim hafi orðið vel ágengt í viðræðunum.

Bjarni segir að hann sjái fyrir endann á samræðum flokkanna um málefnin. Þá taki við önnur atriði sem geti kallast praktísk atriði. „. Ég ætla ekki að lofa neinum dagsetningum en miðað við hvernig gengið hefur undanfarna viku þá er ég bjartsýnn á að dagarnir framundan í þessari viku muni nýtast okkur mjög vel til þess að klára þetta.“

Ýmsar hugmyndir hafa verið nefndar, samkvæmt heimildum fréttastofu. Til að mynda hefur það verið nefnt að Sjálfstæðisflokkurinn fái forseta Alþingis. Í því embætti yrði þá líklega annað hvort Einar K. Guðfinnsson eða Kristján Þór Júlíusson. Þá hefur einnig verið nefnt að leggja niður sérstaka veiðigjaldið strax á sumarþingi, til að koma í veg fyrir að það taki gildi á næsta fiskveiðiári. Ekkert hefur þó enn verið ákveðið í þessum efnum.

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi