Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Veiddi þorsk og er nú læknaður með þorski

24.05.2016 - 19:45
Maður sem hefur varið ævinni í að veiða þorsk fær nú meðferð við legusári þar sem meðhöndlað þorskroð er lagt á sárið. Hann segist elska þorsk eftir meðferðina.

Í byrjun mars leit fréttastofa við hjá Guðmundi Rósmundssyni sem er búsettur í Bolungarvík. Hann var þá búinn að glíma slæm legusár eftir lærbrot.

„Þessi erfiðu sár eru frekar erfið þannig og þá erum við lengi að eiga við þau og við höfðum verið með Guðmund, að skipta á hans sári, í rúma tvo mánuði án þess að sjá neinn mun og við ákváðum að prófa þessa meðferð,“ segir Fjóla Bjarnadóttir, hjúkrunarfræðingur á hjúkrunarheimilinu í Bolungarvík.

Nýsköpunarfyirtækið Kerecis á Ísafirði hefur getið af sér gott orð fyrir árangur í meðferð þrálátra sára. Þorskroð sem er ríkt af Omega 3 er notað sem gervihúð yfir sárin. „Þegar sárin eru búin að vera opin svona lengi þá er komin mikil bólguvirkni í sárið og þá er þetta sett í til að draga úr bólgunni og hjálpa frumum líkamans að gróa inn í þorskroðið og nota það sem svona byggingargrind fyrir sáragróandann,“ segir læknir hjá Kerecis.

„Ég byrjaði tíu ára og hef veitt þorsk alla mína ævi. Og svo endar það á því að þetta er besta meðferð sem ég hef fengið á ævinni, þetta roð,“ segir Guðmundur, sem starfaði lengi sem skipstjóri.

„Þannig að það má segja að þorskurinn hafi spilað lykilhlutverk í þínu lífi?“ – „Já! Alveg hreint, alveg hreint.“

„Hvaða þýðingu hefur þetta fyrir fólk sem er að glíma við þessi sár?“ „Það náttúrlega flýtir fyrir öllu bataferlinu og eins og hjá honum að fara að geta hreyft sig meira, það er náttúrlega ákveðin skerðing á lífsgæðum að vera með þessi stóru sár. Svo má heldur ekki gleyma því að það er heilmikill kostnaður í kringum þessi sár og því fyrr sem þau gróa, því betra fyrir alla,“ segir Fjóla.

„Þú hefur fulla trú á?“ – „Þorskinum. Og ég elska þorskinn eftir þetta,“ segir Guðmundur.