Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Vegurinn um Vatnsnes með versta móti

13.10.2018 - 13:23
Mynd með færslu
Vegurinn um Vatnsnes. Mynd úr safni. Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Íbúar við Vatnsnesveg í Húnaþingi Vestra eru orðnir langþreyttir á ástandi vegarins. Boðað var til íbúafundar vegna hans í vikunni. Ingveldur Ása Konráðsdóttir, formaður byggðarráðs og bóndi á Vatnsnesi, segir að það sé lýjandi að búa við veginn sem hafi sjaldan verið verri.

„Vegurinn er mjög holóttur núna. Kantarnir eru tæpir. Maður er hræddur um að fara út af. Búið að lækka hámarkshraðann niður í 30 á einum kafla,“ segir Ingveldur. „Tíðarfarið hefur verið einstaklega leiðinlegt. Mikið rigningarsumar. Við svona tíðarfar verður vegurinn alltaf verri og verri. Hann er með versta móti núna.“

Vatnsnesvegur liggur frá Hvammstanga út Vatnsnes að vestanverðu og áfram inn nesið austanvert að þjóðvegi eitt. Heimamenn á þessum slóðum hafa lengi kallað eftir endurbótum vegna ástands vegarins. Ingveldur segir að sveitastjórn bindi miklar vonir við samgönguáætlun og góðar undirtektir frá samgönguráðuneytinu.

Ágúst Þorbjörnsson, skólabílstjóri, fer Vatnsnesveg tvisvar á dag með þrettán börn í grunnskólann á Hvammstanga. Hann segir að hann sé þrjá og hálfan tíma að fara 160 kílómetra rúnt um veginn á hverjum degi. Ágúst segir að það komi fyrir að börnin séu bílveik í bílnum. Börn sem fari lengst séu einn og hálfan tíma á dag í skólaakstri.

„Þetta er rosalega þreytandi þegar að vegurinn er svona slæmur. Sérstaklega fyrir skólakrakkana að ferðast í bílnum þegar að vegurinn er svona slæmur. Þetta hlýtur líka að vera þreytandi fyrir krakkana að sitja svona lengi í bílnum á svona slæmum vegi,“ segir Ágúst.

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV