Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vegurinn í Árneshreppi ekki lengur lokaður

13.08.2019 - 09:38
Mynd með færslu
 Mynd: Jón G. Guðjónsson - RÚV
Vegurinn norður í Árneshrepp á Ströndum er ekki lengur lokaður vegna grjóthruns og skriðufalla beggja vegna Kaldbaksvíkur. Búið er að fjarlægja grjótið sem féll á hann í gær. Fulltrúi Vegagerðarinnar ók veginn í morgun og gekk úr skugga um að ekkert grjót væri á veginum.

Vegagerðin varar þó við grjóthruni á Strandavegi. Á svæðinu er mikil úrkoma og því gætu fallið skriður norðan Bjarnarfjarðar. 

Í gærkvöldi var greint frá því að heljarmikið bjarg sæti á miðjum veginum inn í Árneshrepp á Ströndum. Þá hefðu aurskriður fallið á veginn en mikil úrkoma var á þessu svæði í gær. Vegurinn væri þess vegna lokaður. Elías Svavar Kristinsson birti myndir af skriðunum á veginum á Facebook í gær.

Þegar Vegagerðin fór á stúfana í morgun fundust engin ummerki um heljarmikið bjarg á veginum, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Tinna Eiríksdóttir
Fréttastofa RÚV