Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Veggjöldin ýmist lofuð eða löstuð

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sveitarstjórnarfólk og íbúar á landsbyggðinni skiptast í tvær fylkingar í afstöðu til veggjalda. Bæjarstjórar í Bolungarvík og Fjarðabyggð eru ekki fylgjandi gjaldtöku í jarðgöngum, en forseti bæjarstjórnar á Seyðisfirði er fylgjandi þeim. Vörubílstjóri keyrir daglega í gegn um alla gjaldtökustaðina á höfuðborgarsvæðinu. Íbúi í Bolungarvík segir þau sjálfsagðan hlut.

Vegtollar algengir viða

Meirihluti umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis skilaði loks á fimmtudag áliti sínu um samgönguáætlun til fimm ára. Eitt umdeildasta málið eru veggjöldin, sem eiga að fjármagna framkvæmdir. Veggjöld eru algeng í Skandinavíu og víðar í Evrópu. Svíar gera ráð fyrir að innheimta kílómetragjald í stað skatta á bensín og dísil innan áratugar. 

Í fyrra keyrðu yfir tvær og hálf milljón um Ísland og vegakerfið ræður ekki við fjöldann. Á næstu árum er búist við að tekjur ríkisins af eldsneytisgjöldum minnki um allt að helming með fjölgun rafmagnsbíla.

Þrír ásar í kring um Reykjavík

En hvar stendur til að rukka? Tillögurnar ná til þriggja samgönguása. Á Reykjanesbraut, þar sem á að tvöfalda veg til Keflavíkurflugvallar. Á Suðurlandsvegi, frá Reykjavík til Selfoss, þar sem á að skilja akstursstefnur að. 
Og á Vesturlandsvegi, frá Borgarnesi til borgarinnar.

Fram kom í tilkynningu frá Vegagerðinni í dag að breikkun vegarins hefjist í haust og ljúki 2022 eins og til stóð, þrátt fyrir tilfærslur á peningum. Íbúar í Grundarhverfi á Kjalarnesi og sveitarfélögum á Vesturlandi hafa ítrekað kallað eftir úrbótum hér á Vesturlandsvegi. Því að þó að það sé sól og logn í dag, þá verður oft ansi hvasst á Kjalarnesinu og fjölmörg bílslys hafa orðið þar á undanförnum árum.

Óréttlát gjöld fyrir landsbyggðina

Flestir vilja bæta umferðaröryggi, en leiðirnar eru umdeildar. 

„Þurfum við veggjöld? Hvað með þá sem fara aldrei út úr reykjavík og borga þar af leiðandi aldrei veggjöld?” spyr Sunna Reyr Sigurjónsdóttir, íbúi í Bolungarvík. „Á móti þeim sem þurfa kannski að fara mörgum sinnum veggjöld og borga því veggjöld á mörgum stöðum. Mér finnst vera svo mikið óréttlæti í kringum þetta veggjaldatal.”

Einar Kristjánsson vörubílstjóri segist efins um framkvæmdina í kring um Reykjavík. „Við erum að keyra frá Grundartanga og alveg suður á Reykjanes, og annars vegar austur á selfoss og austur fyrir hvolsvöll. Þannig að þetta yrðu ansi mörg gjaldhlið á leiðinni.”

Engin stemning fyrir veggjöldum

Þá stendur til að innheimta veggjöld í jarðgöngum landsins. En ekki liggur fyrir í hvaða göngum eða hversu hátt gjaldið verður. Á til dæmis að innheimta veggjöld í Bolungarvíkurgöngum sem er eina leiðin á landi til og frá Bolungarvík?

„Það þarf engan sérfræðing að sjá að fólk í Bolungarvík er ekkert spennt fyrir þessu, þannig að stemningin er nákvæmlega engin,” segir Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri í Bolungarvík. „Þegar það er verið að byggja göng þá er þetta valmöguleiki sem er verið að presentera fyrir fólki og þannig þarf að nálgast þetta verkefni að koma síðan mörgum árum seinna og skella á veggjöldum er eins og að setja bara skatt sérstaklega á íbúana í Bolungarvík.”

Örnólfur Guðmundsson, íbúi í Bolungarvík, er ósammála bæjarstjóranum. 
„Við viljum öryggi á vegina og við verðum að taka þátt í því sjálf. það er ekki alltaf hægt að heimta allt af ríkinu,” segir hann. „Veggöng hér eins og í Bolungarvík eru búin að veita okkur mikið öryggi frá því að Óshlíðin var og mér finnst alveg sjálfsagt að við tökum þátt í jarðgöngum og við sem nýtum þetta, mér finnst það sjálfsagt.”

Göngin þjóðbraut eins og Miklabraut

Á Austurlandi eru helst tvenn jarðgöng þar sem kæmi til greina að hefja gjaldtöku. Norðfjarðargöng sem voru tekin í noktun 2017 og Fáskrúðsfjarðargöng sem voru opnið 2005. 

Karl Óttar Pétursson, bæjarstjóri í Fjarðabyggð, undirstrikar að göngin eru þjóðbrautir í þéttbýli. „Og ef það ætti að leggja á þaugjald þá væri alveg eins hægt að leggja á þjóðbraut í þéttbýli eins og Miklubrautina eða mannvirki sem þar eru. Þá verður líka að horfa til þess að göngin til Norðfjarðar eru eins leiðin til Norfjarðar þannig að það væri mjög sérstakt að legga veggjöld þar á.”

Málið horfir öðruvísi við þar sem stórar framkvæmdir bíða. Þannig hefur sveitarstjórn Djúpavogs fagnað veggjöldum sem myndu nýtast til að byggja heilsársveg yfir Öxi og Seyðfirðingar vona að veggjöld verði til flýta göngum. 

„Við erum hlynt veggjöldum. Útfærslan er lykilatriði og þá erum við að tala um upphæðina og að þessi skattur eigi að renna allur til stórra samgönguframkvæmda sem hafa beðið lengi,” segir Hildur Þórisdóttir, forseti bæjarstjórnar á Seyðisfirði. „Við höfum barist fyrir göngum undir Fjarðarheiði nú í 40 ár þannig að við erum að horfa á þetta út frá því.”

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
dagskrárgerðarmaður
hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður
runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV