Veggjöld standa ekki undir kostnaði

06.01.2012 - 19:11
Mynd með færslu
 Mynd:
Veggjöld í Vaðlaheiðargöng munu ekki standa undir kostnaði við gerð og rekstur ganganna. Líklegt er að framkvæmdin verði mun dýrari en núverandi áætlanir gera ráð fyrir og að milljarða-kostnaður falli á ríkissjóð.

Alþingi ákveður á næstunni hvort heimila eigi ríkissjóði að veita ríkisábyrgð vegna framkvæmda við Vaðlaheiðargöng eða að ríkið taki tíu
milljarða króna lán sem veitt verði til verkefnisins. Ráðgjafarfyrirtæki hefur kannað hagkvæmni ganganna, hvort þau standi undir sér með veggjöldum, sem er forsenda fyrir stuðningi innanríkisráðuneytisins. Fjármálaráðuneytið hefur ekki enn viljað birta niðurstöðurnar.

Stjórnarformaður Vaðlaheiðarganga hefur sagt þingmönnum að verkefnið standi undir sér með veggjöldum. Miðað við umferðarspá verði hægt að
greiða upp langtímalán félagsins á 25-30 árum, miðað við spá félagsins um aukna umferð. Veggjald yrði um eitt þúsund krónur fyrir fólksbíl.  Upplýsingar frá Vegagerðinni sýna hins vegar, að í fyrra nam samdráttur í 5,3%, mesta samdrátt frá árinu 1975, eða frá því að mælingar hófust. Umferðin um Víkurskarð minnkaði enn meira á árinu, eða um 6,7%.

Pálmi Kristinsson verkfræðingur hefur unnið ítarlegt, óháð mat á forsendum Vaðlaheiðarganga. Pálmi var ráðgjafi Spalar í undirbúningi Hvalfjarðarganga, og var aðalráðgjafi Landssamtaka lífeyrissjóða í viðræðum við stjórnvöld um fjármögnun stórframkvæmda í vegagerð á árinu 2010.

Það er niðurstaða hans að innheimta veggjalda muni ekki standa undir kostnaði Vaðlaheiðarganga miðað við núverandi forsendur, þær gangi
ekki upp og endanlegur kostnaður verði hærri og tekjur af veggjöldum lægri en áætlanir geri ráð fyrir. Þá sé enn mikil óvissa um áætlaðan heildarkostnað, áætlaður rekstrarkostnaður sé of lágur, núverandi umferð sé of lítil og mikill samdráttur í almennri umferð. Spá um umferðaraukningu sé of há og greiðsluvilji vegfarenda ofmetinn miðað við ávinninginn af því að fara um göngin í stað þess að aka um Víkurskarð. Þá fylgi verkefninu gríðarleg lánaáhætta og miklar líkur séu á að ríkissjóður þurfi að taka á sig margra milljarða krostnað vegna þess og hverfandi líkur séu á því að hægt verði að endurfjármagna framkvæmdalán ganganna með 3,7% vöxtum án ríkisábyrgðar árið 2017, en þá er gert ráð fyrir
gjalddaga framkvæmdalánsins. Þá eru vinnubrögð við undirbúning verkefnisins harðlega gangrýnd, fjárhagslegur undirbúningur óvandaður og of skammt á veg kominn. Stjórnvöld eru sömuleiðis gagnrýnd sem lánveitandi fyrir ófagmannleg vinnubrögð, og takmörkuð hagsmunagæsla hafi verið fyrir hönd ríkissjóðs. Þá hafi fjármálaráðgjafar Vaðhleiðarganga hf. haft takmarkaða þekkingu og reynslu af verkefnum af þessu tagi.

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi