Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Veggjöld og vegabætur í endurskoðaðri áætlun

05.12.2018 - 17:45
Mynd með færslu
 Mynd:
Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra segir að tekið verði á tillögum um veggjöld, og kröfum um að vegabótum á höfuðborgarsvæðinu verði flýtt, í endurskoðaðri samgönguáætlun. Hún eigi að líta dagsins ljós á næstu dögum. 

Formaður Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sagði í fréttum RÚV í fyrrakvöld að flýta þyrfti brýnum vegaframkvæmdum áður en ákveðið verði að taka upp veggjöld. Þá sé mikilvægt að það fé sem innheimtist með veggjöldum renni til höfuðborgarsvæðisins. Umræðan um veggjöld og útfærslu á þeim sé komin fram úr sér.

 

„Ég get vel skilið að mörgum finnist hugsanlegar tillögur komnar býsna langt,“ segir Sigurður Ingi. Umræðan í samfélaginu í haust hafi þó verið jákvæð.

„Nú er það þannig að samgönguáætlun liggur fyrir þinginu. Þar er mikill vilji til þess að fara þessa leið og samgönguáætlun, eðlis máls vegna, tekur á öllu þessum þáttum. Þannig að ég á von á því að spurningum formanns Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sem og annarra verði svarað í niðurstöðu þeirri.“

Kemur það fljótt? „Já, við vonumst til þess að geta kynnt það til sögunnar á næstu dögum og samkvæmt starfsáætlun þingsins ætlum við að vera búin með þetta fyrir föstudaginn í næstu viku.“