Vegatollar á nýju Sundabrautinni

12.07.2014 - 12:46
Mynd með færslu
 Mynd:
Þeir sem aka nýja Sundabraut þurfa að borga vegtolla. Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra, sem fundaði með borgarstjóra í gær um málið, segir ríki og borg ræða útfærsluleiðir á brautinni í samstarfi við fjárfesta.

Hjá ríkisstjórninni er vilji til þess að fara í frekari einkaframkvæmdir í vegagerð. 

Nefnd í innanríkisráðuneytinu hefur velt upp möguleikum á samgöngubótum í einkaframkvæmd víða á landinu. Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra segir að skýrasti kosturinn sé Sundabraut.

Hún fundaði með Degi B. Eggertssyni borgarstjóra í gær vegna málsins. Hún segist eiga von á því að nú hefjist ákveðið samstarf á milli Reykjavíkurborgar og ráðuneytisins. Svo verði niðurstaðan að koma í ljós með haustinu.

„Það eru auðvitað nokkrar leiðir sem hafa verið til umræðu hvað varðar Sundabraut. Svokölluð botngöng, eða hábrú, eyjalausnin,“ segir Hanna Birna. „Þetta er eitthvað sem þarf að fara yfir bæði í samstarfi við sveitarfélagið en líka í samstarfi við þá aðila sem hafa áhuga á að fjárfesta í verkefninu.“

Í nýju aðalskipulagi Reykjavíkurborgar sem gildir til ársins 2030 er lagt til að Sundabraut verði lögð á milli Sæbrautar eða Holtagarðs og Klepps yfir í Grafarvog út við Gufunes. Til stendur að láta þá, sem fara hina nýju Sundabraut, borga vegtolla.

„Síðan þurfa þeir sem eru að nýta þá samgöngubót að greiða fyrir hana. Þess vegna hefur alltaf verið meginreglan hjá okkur að fara ekki í einkaframkvæmd nema vegfarendur geti farið aðra leið,“ segir Hanna Birna.

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi