Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Vegagerðin vill áfram veg um Teigsskóg

28.03.2017 - 18:00
Vegagerðin reiknar með að sækja um framkvæmdaleyfi fyrir vegi um Teigsskóg og fylgja þannig sinni tillögu að vegstæði fyrir Vestfjarðaveg. Skipulagsstofnun lagði hins vegar til aðra veglínu, D-2, í áliti sínu á umhverfismati Vegagerðarinnar fyrir Vestfjarðaveg sem var skilað til Vegagerðarinnar í dag.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni. Þar segir að álit Skipulagsstofnunar sé í meginatriðum í samræmi við niðurstöður Vegagerðarinnar á mati umhverfisþátta. Vegagerðin telur jafnframt að leið D-2, sem Skipulagsstofnun mælir með, hafi minnst neikvæð umhverfisáhrif af þeim fimm veglínum sem teknar voru fyrir í matsskýrslu Vegagerðarinnar. Kostnaðarrök ráða þó leiðarvali og samkvæmt Vegagerðinni er fjögurra milljarða króna munur er á áætluðum kostnaði við leið Þ-H og næstódýrustu leiðina. Þá vekur Vegagerðin athygli á því að ef jarðgöng verða lögð undir Hjallaháls mun Vestfjarðavegur áfram liggja um Ódrjúgsháls. Veglína Þ-H, um Teigsskóg, er öll á láglendi og er tveimur kílómetrum styttri en leið D2.

Vegagerðin hyggst nú taka saman rök og skýringar við ýmsum ábendingum og álitaefnum og reiknar svo með því að sækja um framkvæmdaleyfi fyrir lagningu vegarins samkvæmt leið Þ-H til sveitarstjórnar Reykhólahrepps.