Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Veðurstofa varar við íshelli í Hofsjökli

14.02.2018 - 17:08
Mynd með færslu
 Mynd: Fannborg - Háfjallamiðstöð - RÚV
Veðurstofa Íslands telur óráðlegt að fara inn í nýfundinn íshelli í Blágnípujökli, sem gengur suðvestur úr Hofsjökli. Hættulegt getur verið að fara þar um vegna ísfleka sem hanga lausir í lofti hellisins auk þess sem mikil brennisteinsmengun hefur mælst.

Fram kemur í tilkynningu frá Veðurstofunni að framan við jökulinn séu nýleg merki umbrota sem þarna urðu haustið 2017. Hópur jeppamanna fór á staðinn þann 3. febrúar og gengu leiðangursmenn um 150 metra inn í botn íshellisins. Brennisteinsfýla fannst í hellinum og innst í honum mældist styrkur brennisteinsvetnis um 60 ppm. Slíkur styrkur getur valdið öndunarerfiðleikum og augnskemmdum ef dvalið er eina klukkustund eða lengur í svo menguðu lofti. 

Ekki hægt að útiloka að virkni færist í aukana.

Veðurstofa segir að fyrir 15 árum sást ketill myndaður af jarðhita á svipuðum stað í jöklinum og þá var mjög sterk brennisteinslykt á svæðinu. Ekki sé því hægt að útiloka að virknin í hellinum færist í aukana. Þá sé rétt að benda á að lykt af brennisteinsvetni finnst ekki lengur þegar styrkur fer yfir 150 ppm og því sé óráðlegt að fara inn í hellinn nema að hafa með sér gasmælitæki.

Samkvæmt heimildum fréttastofu hafa komið upp tilvik þar sem liðið hefur yfir fólk sem hefur farið inn í hellinn. Fréttastofa náði tali af manni sem fór nýlega í hellinn. Þar leið yfir dóttur hans. „Við vorum þarna stór hópur á ferðinni inn í þessum helli. Við vorum búin að labba þarna inn á meðan það var hátt til lofts. Við vorum að taka myndir af hópnum þá erum við með eina 7 ára gamla dóttur sem sest niður á syllu í hellinum. Mamma hennar tekur eftir því að henni líður illa og reynir að fá hana með sér út úr hellinum.“

Algjörlega meðvitundarlaus

„Þegar hún lítur svo næst á hana þá er hún bara algjörlega meðvitundarlaus og það sá bara í hvítuna í augunum hennar og það korraði í henni þannig hún átti greinilega erfitt með andardrátt. Við rífum hana undir handarkrikana og hlupum með hana út. Svo þegar við erum hálfnaðir á leiðinni út þá alltíeinu spyr hún pabbi af hverju eruði að hlaupa með mig út? Þá hafði hún rankað við sér um leið og hún komst í meira súrefni.“

Viðmælandi fréttastofu, sem kaus að koma ekki fram undir nafni, segir mikilvægt að vekja athygli á því hve hættulegur hellirinn geti verið. „Við vorum mörg sem fórum inn og það var mikið af fólki sem við heyrðum af sem var að fara inn seinna um daginn. Við vorum fyrsti hópurinn og við vorum í kringum 50 manns. Þetta er gríðarlega stór hellir, þú kæmir 50-60 bílum þarna inn. Það er samt ekki þannig að það þurfi að loka þessum helli - fólk þarf bara að sýna mikla aðgát.“

Rögnvaldur Ólafsson hjá Almannavörnum tekur undir áhyggjur Veðurstofunnar af íshellinum og hvetur fólk til að fara með aðgát. Enginn ætti að fara inn í svona hella án þess að vera með gasmælitæki. Þá þarf fólk einnig að hafa í huga að íshellar eru óstöðugir og því hætta á að eitthvað hrynji úr loftinu. 

milla.osk's picture
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV