Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Veðurfræðingar svara fyrir sig

07.11.2012 - 20:09
Mynd með færslu
 Mynd:
„Gott kvöld. Það er bæði fróðlegt og skemmtilegt að skoða gömul veðurkort og ekki síst gamlar óveðursspár. Hér höfum við dæmi um slíka spá sem var gefin út 8. september og gilti fyrir 10. september.“ Með þessum orðum hóf Haraldur Ólafsson veðurfréttirnar í sjónvarpinu í kvöld.

Þó Haraldur hafi hvergi vitnað til orða Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra á Alþingi í gær um að engar spár eða viðvaranir hefðu verið gefnar út fyrir óveðrið í september fór ekki milli mála hvað hann átti við. „Við sjáum á þessu korti að það er gert ráð fyrir 25 metrum á sekúndum hérna á miðunum fyrir norðan land. Það eru tíu gömul vindstig og í tíu vindstigum má búast við að tré rifni upp með rótum,“ sagði Haraldur þar sem hann stóð fyrir framan veðurkortið með óveðursspánni frá í septemberbyrjun. Hann varði svo næstu mínútunni í að fara yfir það hvað kortið þýddi og benti á snjókorn á kortinu sem væru til marks um að spáð væri snjókomu.

Rætt var við Theodór Hervarsson, framkvæmdastjóra eftirlits- og spádeildar Veðurstofunnar, í kvöldfréttum RÚV. Hann andmælti einnig orðum innanríkisráðherra. Hann sagði að gefnar hefðu verið út viðvaranir en sagði hins vegar að bæta mætti verklag Veðurstofunnar og samskipti við Almannavarnir.

Þá sendi umhverfisráðuneytið, sem fer með málefni Veðurstofunnar, frá sér yfirlýsingu í dag þar sem það hafnaði ummælum Ögmundar.