Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Veðrið er við, við erum veðrið

Mynd: RÚV / RÚV

Veðrið er við, við erum veðrið

06.09.2018 - 11:43

Höfundar

„Fyrir mér er veðrið svo miklu stærra en við sjálf. Við erum alltaf einhvern veginn agnarsmá gagnvart því. Ég vildi hugsa um það í þessu ferli og hvernig við ráðum ekkert við veður og hvaða áhrif það hefur á okkur,“ segir Ragnheiður Harpa Leifsdóttir listamaður. Hún sýnir ásamt fjórum öðrum á samsýningunni Allra veðra von í Hafnarborg.

Listamennirnir fást við samband veður og manns í ýmsum myndum undir sýningarstjórn Mörtu Sigríðar Pétursdóttur. „Í desember á síðasta ári var auglýst eftir umsóknum um þessa haustsýningu Hafnarborgar, en á hverju ári er óreyndum sýningarstjóra boðið að spreyta sig. Tungumálið er gegnumsýrt af veðurmyndum og veðrið er einhvern veginn við og við erum veðrið og það er erfitt að greina þar á milli.“

Þátttakendur í sýningunni starfa undir merkjum myndlistarhópsins IYFAC. Listamennirnir eru Halla Birgisdóttir, Ragnheiður Harpa Leifsdóttir, Ragnheiður Maísól Sturludóttir, Sigrún Hlín Sigurðardóttir og Steinunn Lilja Emilsdóttir.

Halla vinnur blýantsteikningar og sýnir í Hafnarborg stór verk sem þekja sinn hvorn vegginn, og svo margar smærri myndir. „Verkið mitt heitir hæðir og lægðir og  nálgast þetta út frá tilfinningum versus veður, hvernig við notum veðurorð til að lýsa tilfinningum. Ég er með geðhvörf þannig að ég vinn þetta dálítið út frá mínu persónulega og skoða þar hæðir og lægðir,“ segir hún. 

Smæð mannsins, smá grín

Verk Sigrúnar Hlínar er risavaxin, hvít úlpa, fyllt plasti. „Ég fór strax að hugsa um hvernig maður skýlir sér fyrir veðrinu og efnunum sem við tökum úr umhverfinu til að búa til klæðnaðinn. Hér nota ég pólýesterefni sem er þunnt og fullkomlega gegndræpt þannig að þetta er eiginlega bara svona smá grín, af því að þetta héldi aldrei neinu veðri. Vindurinn og regnið fara beint í gegn. Það fer líka að snúast um smæð mannsins gagnvart náttúruöflunum og síðan sé ég þegar þetta kemur inn í rýmið hvernig þetta er eins og risastórt ský, þetta fær einhvern veginn á sig þá áru,“ segir Sigrún.

Ragnheiður Maísól Sturludóttir á fjölbreytt verk á sýningunni. „Ég vinn með það hvernig veðrið hefur áhrif á okkur tilfinningalega. Bæði hvernig við reynum að setja einhverja merkingu í veðrið og lesa í það, hvernig það hefur áhrif á okkur líkamlega og á geðlag okkar. Þannig að ég nálgast þetta sem veðrið sem ósýnilegt afl.“

Horfði alveg í klessu

Verkum Steinunnar Lilju mætti lýsa sem texta-mósaík. „Mín verk eru klippimyndir, ég er mikið fyrir form og ég vann þetta þannig að ég gúglaði "extreme weather" og fann myndir sem heilluðu mig. Svo horfði ég á þær alveg í klessu og reyndi að sjá formin og svo setti ég myndina frá mér og fór að klippa niður form og búa til myndina eftir minni. Það í myndinni sem var dýnamískast fyrir mig fékk bláan lit.“

Verk Ragnheiðar Hörpu er stærðarinnar gullitaður silkistrengur. „Ég leitaði einhvern veginn til sólarinnar af því að hún hefur svo gígantísk áhrif á okkur. Mín nálgun á þetta er að ég gerði þennan hérna geisla í rauninni úr efni, þetta er silki og það hefur þennan eiginleika að vera næmur og einhvern veginn minnir á slæður mömmu þinnar í fataskápnum, krumpaðar. Það er líka svo ofboðslega mikil fórn fólgin í því að búa það til, ormurinn deyr eftir að hann skilar því frá sér,“ segir hún. 

Sýningin stendur til 21. október. Nánari upplýsingar má finna á vef Hafnarborgar.