Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Veðjar ekki aleigunni á að viðræður beri ávöxt

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Vinstri grænna, segist ekki vilja veðja aleigunni á að forysta flokksins geti náð viðunandi niðurstöðu í stjórnarmyndunarviðræðum við Sjálfstæðisflokk. Andrés greiddi atkvæði gegn því að fara í formlegar viðræður við Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk á fundi þingflokksins í dag, annar tveggja þingmanna ásamt Rósu Björk Brynjólfsdóttur.

„Mér fannst ekki koma nógu áþreifanlegar niðurstöður úr óformlegum viðræðum um helgina. Þótt það sé kannski meira en maður getur ætlast til úr óformlegum viðræðum þá fannst mér ástæða til þess að við hefðum einhverja stóra áfangasigra á þeim tímapunkti af því að það að stíga skrefið yfir í formlegar viðræður með Sjálfstæðisflokknum, sem er andstæði póllinn á stjórnmálarófinu, það er meira en að segja það. Ég hefði viljað hafa viljað hafa meira fast í hendi til að taka þá ákvörðun,“ segir Andrés Ingi.

Langt á milli flokkanna í málefnum

Rósa Björk segist einfaldlega ekki treysta Sjálfstæðisflokknum vegna siðferðismála sem hafi umleikið flokkinn. Er Andrés á sama máli?

„Það þarf allavega að byggja upp traust ef maður á að geta unnið með þeim og mér finnst Sjálfstæðisflokkurinn ekki hafa gert mikið í því undanfarin misseri. Að því sögðu þá held ég að ef það er einhver sem getur náð ásættanlegri niðurstöðu út úr Sjálfstæðisflokknum þá er það forystusveit Vinstri grænna, þótt ég mundi kannski ekki veðja aleigunni á að það takist. Það er bara það langt á milli flokkanna í málefnum,“ segir hann.

Spurður hvort hann mundi styðja ríkisstjórn sem kæmi út úr viðræðum sem þessum svarar Andrés: „Ég tek bara afstöðu til þess þegar það liggur allt fyrir – tek eitt skref í einu.“

En munt þú taka þátt í þessum viðræðum?
„Það er nú ekkert búið að teikna upp verklag í kringum þessar viðræður en ég bara sinni þeim verkefnum sem þingflokkurinn biður mig að sinna, þó að það sé örugglega hægt að finna einhverja sem væru færari til að taka þátt í þessum viðræðum en okkur sem kusum gegn þeim,“ segir Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs.