Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Vaxtamunarviðskipti enn á ný

20.07.2015 - 17:52
Mynd: Anton Brink RÚV / RÚV Anton Brink
Vaxtamunarviðskipti, það er að erlent fé leitar inn í að fjárfesta í íslenskum ríkispappírum í hávaxtaumhverfinu hér, eru aftur hafin eins og Brynjar Örn Ólafsson hagfræðingur benti á í grein nýlega.

 

Í nýju mati Standard og Poor's matsfyrirtækisins á íslenska ríkisinu er bent á að Ísland sé minnsta hagkerfi í heimi með sjálfstæða peningastefnu. Íslensk hagsaga undanfarna áratugi er sveiflusaga. Hagstjórn hér er erfið og álitamál hvort sígild hagstjórnartæki eins og virki eins og í stærri hagkerfum.

Fyrir hrun voru vextir á Íslandi háir, þeir lækkuðu eftir hrun en hafa svo að mestu hækkað síðan haustið 2011 og eru nú háir miðað við nágrannalöndin. Fjármálarýnar búast við frekari hækkunum. Háir vextir fyrir hrun voru andsvar við hárri verðbólgu þó það tækist aldrei almennilega að hefta hana. Hliðarverkun hárra vaxta er gengisstyrking.

Þegar vextir fóru að hækka haustið 2011 fór Seðlabankinn ekkert í felur með að bankinn stefndi á að viðhalda vaxtamun við útlönd svo Ísland væri vænlegur fjárfestingakostur. En það var fyrst núna í júní sem sjá mátti áþreifanleg merki um vaxtamunaviðskipti á nýjan leik. Og það er saga til næsta bæjar.

Í grein í Viðskiptablaðinu nýlega benti Brynjar Örn Ólafsson hagfræðingur á Hagstofunni á að af vefsíðu Lánamála ríkisins mætti lesa um kaup fyrir þrjá milljarða af óverðtryggðum ríkisbréfum á gjalddaga 2031. Á sama tíma fór svipuð upphæð um gjaldeyrismarkaðinn sem bendir til að kaupandinn sé erlendur. Þetta er án efa nýfjárfesting, samkvæmt skilgreiningu Seðlabankans, því erlendir aðilar í höftum geta ekki lengur keypt þessi bréf. Reyndar voru einnig keypt bréf á sömu forsendum með gjalddaga 2025 svo alls námu þessi viðskipti 4,5 milljörðum.

Samkvæmt heimildum Spegilsins er um að ræða einn aðila, að öllum líkindum erlenda fjármálastofnun líkt og gilti um vaxtamunaviðskiptin fyrir hrun.

En hvað með gengisáhættuna og höftin? Menn búast við losun hafta en gengisáhættan er auðvitað til staðar. Með núll-vexti víða í nágrannalöndunum og sjö prósenta vexti hér er hvatinn til þessara viðskipta nú í raun meiri en var fyrir hrun þegar vextir voru víða í kringum þrjú prósent en tíu á Íslandi.

Viðskipti upp á 4,5 milljarða í hagkerfi upp á tvö þúsund milljarða hossa ekki hátt. Við hrun, þegar einmitt þessar vaxtamunafjárfestingar kölluðu á höft, nam þessi staða 625 milljörðum eða 44 prósentum af landsframleiðslu, órafjarri nokkrum milljörðum. En stóra spurningin er hvort háir vextir á Íslandi eru aftur farnir að lokka til sín fjárfestingar af þessu tagi. Er Seðlabankanum að verða að ósk sinni og eru vaxtamunaviðskiptin eitthvað til að óska sér?

Íslenskir hagfræðingar skiptast í tvo hópa um hversu trúaðir þeir eru á vaxtastefnu Seðlabankans, bæði hvort hún hafi verið skynsamleg fyrir hrun og eins núna og líka hvort vextir í örhagkerfi eins og því íslenska virki nokkuð eins og í stærri hagkerfum. Það má til dæmis líta svo á að Íslendingar hafi búið, og búi enn, við við tvöfalt vaxtakerfi - stórir aðilar leita lána erlendis á lágum vöxtum og háu vextirnir eru fyrir þá sem komast ekki annað en í íslenska banka.

Aukaverkun af háum vöxtum Seðlabankans er vaxtamunaumhverfið sem fé í leit að hárri ávöxtun til lengri tíma sækir í. Þetta er ekki fé sem er að leita í uppbyggilegar íslenskar fjárfestingar, aðeins að leita að góðri ávöxtun í ríkisbréfum. Þegar betur bíðst annars staðar flýtur þetta fé þangað. Og við áfall eins og 2008 þá flýr þetta fé burtu og það skapar þá fjármálaóstöðugleika og gjaldeyriskreppu. Mörg fleiri lönd en Ísland hafa farið á hliðina við slíkar aðstæður.

Munurinn þá og nú er reyndar hrunreynslan almennt, mætti vona og svo til dæmis inngrip Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði, það er metmikil kaup bankans á gjaldeyri sem þýðir þá að krónan styrkist ekki uppúr öllu valdi eins og var fyrir hrun. Önnur hlið á því máli er hvort bankinn sé þar að auka peningamagn í umferð eins og til dæmis Samtök atvinnulífsins hafa áhyggjur af

En vísbending um ný vaxtamunaviðskipti hljóta að vekja umræður um vaxtastefnu Seðlabankans og þá hvort vaxtamunaviðskiptin séu eftirsóknarverð. Já, skjótt skipast veður í lofti: hver hefði trúað því fyrir nokkrum árum að tæplega sjö árum eftir hrun þyrfti Ísland aftur að glíma við hagstjórn í hitnandi umhverfi

 

jongk's picture
Jón Guðni Kristjánsson
Fréttastofa RÚV