Vaxtabætur fari inn á höfuðstól

04.10.2015 - 19:55
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Varaformaður fjárlaganefndar vill nýta fjármuni sem fara í vaxtabætur til að greiða inn á höfuðstól íbúðalána. Hann segir það óþolandi að ungt fólk geti ekki eignast húsnæði.

Guðlaugur Þór Þórðarson, alþingismaður og varaformaður fjárlaganefndar, hélt fyrirlestur um húsnæðismál í höfuðstöðvum Sjálfstæðisflokksins á föstudag. Þar benti hann á að síðustu átta ár hafi hið opinbera varið 237 milljörðum króna í framlög til húsnæðismála, svo sem í vaxtabætur og niðurfærslu skulda.

„En við erum samt á þeim stað að ungt fólk getur ekki eignast húsnæði. Og það er algjörlega óþolandi. Þannig að við þurfum að lækka opinberan kostnað sem er búinn að hækka gríðarlega. Bæði út af lóðaverði, en sömuleiðis út af nýrri byggingareglugerð. Það er komin reynsla á hana og hún hækkar kostnaðinn um 7,5%. Á meðan lóðaverð hækkar kostnaðinn um 17 til 21% eftir því hvers konar húsnæði er um að ræða,“ segir Guðlaugur Þór. Hann vill því leggja nýju byggingareglugerðina af og taka aftur upp þá gömlu. Þá vill hann nýta þá fjármuni sem fara í vaxtabætur í greiðslur inn á höfuðstól, auk þess sem séreignarsparnaðarleiðin verði fest í sessi.

„Ég legg til að fólki verði hjálpað við að spara. Og hjálpað við að eignast húsnæði. Vaxtabótakerfið eins og það er núna miðar að því að hvetja fólk til að skulda. Það er óskynsamlegt og það kemur illa niður á fólki á einhverjum tímapunkti.“

Nú hefur félagsmálaráðherra lagt til að bætur verði hækkaðar eru þessar hugmyndir ekki þvert á þær hugmyndir?

„Það verður bara að koma í ljós þegar við tökumst á við það. Aðalatriði málsins er þetta: Við verðum að flýta okkur því það liggur á.“

Þú ert varaformaður fjárlaganefndar, muntu beita þér í þessu máli?

„Að sjálfsögðu. Ég hef gert það og mun halda því áfram. Það eru auðvitað að koma frumvörp frá ríkisstjórninni. En eins og ég nefndi þarf fleira að koma til. Sveitarfélögin verða að koma með okkur í þessa vegferð.“

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi