Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vaxandi óánægja með krónprinsinn

20.11.2018 - 16:37
Erlent · Asía · Khasoggi
Mynd með færslu
Mohammed bin Salman krónprins. Mynd:
Sumir í sádiarabísku konungsfjölskyldunni vilja ekki að Mohammed bin Salman krónprins taki við af föður hans látnum og eru farnir að reka áróður fyrir því að einhver annar taki við. Fréttastofan Reuters segist hafa þetta eftir þremur heimildarmönnum tengdum sádiarabísku hirðinni.

Morðið á sádiarabíska blaðamanninum Jamal Khashoggi í síðasta mánuði hefur verið fordæmt um allan heim. Grunur er um að Salman krónprins hafi fyrirskipað það, en yfirvöld í Ríad kenna embættis- og leyniþjónustumönnum um morðið og segja krónprinsinn hvergi hafa komið nærri.

Málið hefur engu að síður komið stjórnvöldum í Ríad í vanda, sem virðist hafa aukið óvinsældir krónprinsins innan Saud-fjölskyldunnar. Ólíkt konungsfjölskyldum í Evrópu er ekki þannig farið að elsti sonur eða dóttir taki sjálfkrafa við heldur kjósa greinar ættarinnar hvern þær telja hæfastan til þess.

Heimildarmenn Reuters segja að tugir prinsa og annarra ættingja vilji breytingar, en vilji ekki láta til skarar skríða á meðan Salman konungur, sem er 82 ára, sé enn á lífi. Hann muni ekki snúast gegn syni sínum.

Hins vegar sé farið að ræða aðra möguleika, þar á meðal að Ahmed bin Abdulaziz prins, yngri bróðir konungsins, 76 ára, taki við krúnunni eftir dauða hans.

Hann njóti virðingar innan Saud-fjölskyldunnar, meðal öryggissveita landsins og í mörgum vestrænum ríkjum, hafi verið varainnanríkisráðherra í næstum 40 ár og verið andvígur því að Mohammad bin Salman yrði krónprins.