Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

„Vatn er stór hluti af lífi okkar“

Mynd: Kevin Tuck / RGBStock

„Vatn er stór hluti af lífi okkar“

30.06.2017 - 16:03

Höfundar

Birna Guðmundsdóttir ræddi við sundlaugaverðina Tuma og Valtý um sundmenningu okkar Íslendinga, þar sem saxófónar, hrunið, berrassaðir Fransmenn og Free The Nipple byltingin koma meðal annars við sögu

Birna Guðmundsdóttir skrifar: 

Fyrstu 9 mánuði lífsins erum við fóstur í móðurkviði, innan í belg fullum af vatni. Við þroskumst inni í vökvafylltu rými þar sem loft kemst ekki einu sinni að, loftskipti fara fram í gegnum blóðrás móður okkar, þaðan sem við fáum næringu okkar. Vatn er stór hluti af líkama manna og raunar allra lífvera á jörðinni. Mest er af vatni í líkama okkar þegar við erum nýfædd en þá er talið að allt að 75 % líkamans sé vatn. Hlutfallið minnkar síðan með árunum, mest á fyrstu 10 árum ævinnar. Já, vatn er sannarlega stór hluti af lífi okkar, ef ég tala nú ekki um að það sé efnið sem við erum í mestri snertingu við áður en við fæðumst inn í þennan heim. Því er ekki að undra að okkur finnist svona gott að vera í vatni sem leiðir okkur einmitt að umfjöllunarefni þessa innslags: hinni margrómuðu sundmenningu okkar.

Þeir Tumi og Valtýr eru dæmi um menn sem lifa og starfa í sundlaugabransanum en þeir eru sundlaugaverðir í Vesturbæjarlaug. Ég hitti þá félaga og við ræddum um hvers vegna Íslendingar eru svona hrifnir af því að fara í sund, hvort sundmenningin hafi breyst í tímans rás og að lokum hvort þeir fari sjálfir í sund. Sundlaugaverðirnir tveir staðfestu hið mikla dálæti landands af sundlaugum landsins, auk þess sem saxófónar, hrunið, berrassaðir Fransmenn og Free The Nipple byltingin komu við sögu. Þeir Tumi og Valtýr sögðust vissir um ágæti sundsins fyrir líkamlega og andlega heilsu og Tumi lýsti ítarlegri sundrútínu sinni fyrir áheyrendum.

,,Mér finnst rosa gott að fara beint út og beint í heitasta pottinn, fara svo í gufuna og svo í kalda pottinn og labba svo hringinn í kringum sundlaugina. Helst rólega með hendur yfir aftan bak, vera svolítið spekingslegur sko, og stoppa svo og fá sér einn vatnssopa í drykkjarfontinum hér fyrir framan. Það er eitthvað gott tempó sem verður til þarna. Svo getur maður endurtekið þetta eins oft og maður vill.” Valtýr sagðist enga sérstaka rútínu hafa en hann syndi þó yfirleitt. ,,Við þurfum að fara í sundvarðapróf og því þarf að halda við.”

Sundvenjur Tuma og Valtýs vekja ef til vill hugrenningartengsl við fyrstu níu mánuði lífs okkar sem fóstur í móðurkviði, ein (og stundum fleiri) með sjálfum okkur í rými fullu af vökva, þannig líður okkur vel.