Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vatíkanið gefur út kennslurit um kyngervi

11.06.2019 - 03:52
epa07636476 Pope Francis (C) leads the Mass of Pentecost at Saint Peter's square in the Vatican City, 09 June 2019. Pentecost celebrates the descent of the Holy Spirit upon Apostles.  EPA-EFE/RICCARDO ANTIMIANI
 Mynd: EPA-EFE - ANSA
Vatíkanið gaf nýverið út skjal þar sem hugmyndum nútímans um kyn og kyngervi er hafnað. Ritið telur 31 blaðsíðu og heitir: „Karl og kona Hann skapaði þau." Þar er talað um að núverandi orðræða um kyngervi stríði gegn náttúrulögmálum og brjóti í bága við hefðbundna fjölskyldumynd. 

Ritið er fegið út af kennslustofnun kaþólsku kirkjunnar sem kennsluleiðbeiningar til þeirra sem vinna með börnum. Það er ekki undirritað af Frans páfa sjálfum, en margar vísanir eru í hann í ritinu. Í ritinu er kallað eftir samræðu, en á sama tíma er þar að finna leiðsögn um ýmis málefni. Meðal annars er rætt um samfélag transfólks, og hugmyndin um að kynin séu fleiri en tvö er gagnrýnd. Að sögn BBC segir í ritinu að núverandi kenningar fjarlægist náttúruna, og að fólk byggi kynímynd sína oft aðeins á tilfinningum og löngunum í ruglingslegu frelsi nútímans. Kyn sé ekki ákvarðað af einstaklingum, heldur fært þeim af guði.

Samtök hinsegin fólks hafa að vonum brugðist illa við skjalinu, sem er gefið út í mánuði hinsegin fólks. BBC hefur eftir Francis DeBernardo, stjórnanda samtaka hinsegin kaþólikka, að skjalið sé verkfæri sem verði notað til þess að kúga og meiða. Það eigi ekki aðeins við um transfólk, heldur einnig samkynhneigða og tvíkynhneigða. Eins hafnar DeBernardo fullyrðingunni um að fólk velji sér kyn. Hann segir skjalið eiga eftir að gera líf einstaklinga sem eru ekki vissir um kynímynd eða kynhneigð sína enn erfiðara. Loks segir DeBernardo að hugmyndafræði Vatíkansins eigi heima í hinum myrku miðöldum.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV