Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Varð ástfangin í gegnum textaskilaboð

Mynd með færslu
 Mynd:  - Youtube

Varð ástfangin í gegnum textaskilaboð

12.04.2018 - 12:04

Höfundar

„Ég var mjög sein að fara á Facebook, bara í rauninni fyrir fjórum, fimm árum. Og mig langaði að fara bara alla leið í þessu,“ segir Björk Guðmundsdóttir í nýlegu viðtali við Rokkland á Rás 2. Hún segist hafa prófað að verða ástfangin í gegnum textaskilaboð og líkir slíkum skrifum við ástarbréfaskriftir fyrr á öldum.

Lagið Blissing me sem finna má á plötunni Utopia sem kom út í nóvember í fyrra, fjallar um ást á samfélagsmiðlum. „Blissing me er í raun um það að verða ástfanginn af einhverjum í gegnum síma. Ég af minni kynslóð, gamli pönkarinn, þetta var svona nýtt fyrir mér,“ segir Björk og bætir við að hana hafi langað að prófa það. „Maður var að senda texta allan daginn, bara non stop. Þetta var komið upp á það hitastig að þegar maður loksins hitti manneskjuna þá vissi maður ekkert hvað maður átti að segja,“ segir hún kankvís og bætir við að það hafi eiginlega bara verið betra að vera í símanum.

Hún segir textaskilaboð í þessu samhengi vera mjög áhugavert form af ástarbréfi og segist hafa sniðið útsetningu lagsins út frá því og notast við hörpur, „þetta er kannski svona átjándu aldar lag að einhverju leyti,“ segir hún. Hún segist hafa lesið um fólk á nítjándu öld sem skrifaði nokkurra metra háa stafla af bréfum hvort til annars, „og voru bara algjörlega ástfangin og svo hittust þau og vissu ekkert hvað þau áttu að segja, eða vildu kannski ekkert hittast.“

Alvöru tilfinningar

Björk vill jafnframt koma unglingum til varnar varðandi þá orðræðu að þau séu alltaf í símanum, „og þetta sé eitthvað feik og eitthvað. Mig langaði líka aðeins að bakka þau upp af því að þetta eru alvöru tilfinningar sem þau eru að upplifa og þetta lag er svolítið um það,“ segir Björk. Hún segir lagið byggt upp á sjö erindum og öll séu þau í réttri tímaröð, og mánuður milli erinda. „Fyrst verður maður meira og meira fanatískur og svo í lokin þá rennur af manni æðið og maður fattar í lokin að þetta hafi kannski verið bara ímyndun.“

Björk notar samfélagsmiðla í auknum mæli og nefnir í því samhengi að hún hafi uppgötvað skemmtilegt atriði varðandi Facebook-aðdáendasíðuna sem hún og hennar teymi halda úti. „Ég er með held ég þrjár milljónir aðdénda. Heldurðu ekki að meirihlutinn séu samkynhneigðir í Suður-Ameríku undir þrítugu!“ Björk nefnir til gamans tónlistarmanninn Arca í því samhengi, en þau hafa unnið mikið saman að undanförnu. „Hommar og lesbíur í Suður-Ameríku sem eru 25 ára, það er minn aðal-aðdáandi. Hann fellur beint inn í þann markhóp. Þetta er eitthvað svona skemmtilegt slys.“

Hér má hlusta á viðtalið í fullri lengd.

Tengdar fréttir

Tónlist

Finnst áhrif sín á íslenska tónlist vanmetin