Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Varast þarf gasmengun við Holuhraun

04.04.2015 - 14:15
Mynd með færslu
 Mynd: Ómar Ragnarsson
Nokkrir hópar ferðamanna komu að gosstöðvunum í Holuhrauni á skírdag, en lítil umferð hefur verið þar síðan og spáð er að hann hvessi.

Kári Erlingsson lögreglumaður sem ásamt fleirum stendur vaktina yfir páskana segir að ekki hafi þurft að hafa afskipti af ferðamönnunum þótt hægt sé að komast nánast að hrauninu.

Erfitt að skynja gasmengunina

Hann varar þó við gasmengun og segir að í gær hafi legið blá móða yfir hrauninu, en menn geri sér ekki alltaf grein fyrir menguninni. „Nei, ekki fyrr en hún er í meira magni og kolmónoxíðmengun, sem er möguleg, finnur maður ekki. En það er hægt að fylgjast með, til dæmis á vef Umhverfisstofnunar, þar er hægt að sjá þrjá sjálfvirka mæla alls staðar í kringum hraunið og mælinar sem þeir gefa. Og síðan reynum við líka að fylgjast með þessu með því að mæla niðri við hraunjaðarinn þegar við erum á ferðinni og getum þá upplýst fólk, en þetta er eitthvað sem þarf að hafa í huga áfram,“ segir Kári.

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV