Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Varasöm snjóhengja í hlíðum Mosfells

31.01.2020 - 08:58
Mynd með færslu
 Mynd: Mynd: Veðurstofan - Tómas Jóh
Snjóflóðavakt Veðurstofunnar varar við hengju í vesturhlíðum Mosfells í Mosfellsdal. Varasamt getur verið að fara fram á fjallsbrúnina.

Íbúi í Mosfellsbæ benti Veðurstofunni á allstóran og brattan skafl við fjallsbrúnina og hafði áhyggjur vegna þess að göngufólk fari oft fram á brún að vestanverðu til þess að njóta útsýnisins. Það getur verið mjög hættulegt núna vegna þess að hætta sé á að fólk gangi fram á brún skaflsins sem er talsvert utan við hina eiginlegu fjallsbrún.

Eins og sjá má á myndinni, sem hér fylgir og tekin var í gærkvöldi, sést vel hversu brattur skaflinn er.  Almennt er ekki mikill snjór í hlíðinni, nema þarna.

„Þetta minnir á að skafsnjór safnast gjarnan á ákveðna staði þar sem ferðalöngum getur verið mikil hætta búin. Það þarf alltaf að gæta varúðar þegar farið er um fjöll að vetrarlagi,“ segir á vef snjóflóðavaktar Veðurstofunnar.