Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Varasamt að kafa í Kleifarvatni

30.08.2018 - 11:32
Myndir teknar við köfun í Kleifarvatni 26. ágúst.
 Mynd: Julian O'neil
Kafarar urðu varir við stóra holu, mikinn svartan sand og dauða fiska við köfun í Kleifarvatni á Reykjanesi síðastliðinn sunnudag. Hópstjóri náttúruvárvöktunar hjá Veðurstofu Íslands segir að líklega streymi þar heitt vatn upp úr hver. Hætta getur skapast af þessu fyrir kafara. Gassérfræðingur á Veðurstofunni hyggst rannsaka málið.

Fraser Cameron, kafari, var við köfun í Kleifarvatni þegar hann varð var við stórt svart svæði á botni vatnsins og dauða fiska. Fraser kafar reglulega í vatninu og segir þetta óvenjulegt. Hann segist hafa tekið eftir smávægilegum breytingum á vatninu undanfarið en í síðustu ferð hans hafi hann tekið eftir  stórvægilegum breytingum. „Gígur, sem ég þekki vel til, var orðinn að stórri holu sem var allavega tíu metrar að breidd. Vatnið á þessum slóðum er venjulega tært og skyggni þar gott en í þessari ferð var skyggni í kringum holuna lélegt og svæðið allt svart, “ segir Fraser.

Mynd með færslu
 Mynd: Julian O'Neil

Cameron hélt fyrst um sinn að bátur á siglingu á vatninu varpaði skugga á botninn. Hann segir vatnið í kringum holuna hafa verið mjög dökkt og að holan hafi verið mun dýpri en gígurinn sem áður var á svæðinu. Hann forðaðist að kafa of nærri holunni og sagði því erfitt að áætla um dýpt hennar.

Kristín Jónsdóttir hjá Veðurstofu Íslands segir í samtali við fréttastofu þekkt að jarðhiti sé í Kleifarvatni og fiskur hafi til dæmis drepist þar árið 2012. Hverasvæðið hafi allt verið undir vatni fyrir Suðurlandsskjálftann 2000 en þá hafi sprunga opnast, vatn runnið ofan í hana, vatnsstaðan lækkað og hverasvæðið syðst í vatninu komið í ljós.

Hún segir að strókurinn sem kafarinn sá hafi líklega verið leir eða svartur sandur sem hafi þyrlast upp þegar heitt vatn streymdi upp úr hver. „Það er ekkert gos í gangi þarna eða neitt óvenjulegt, það hefur ekki einu sinni verið neinn skjálfti í vatninu síðustu daga,“ segir Kristín.

Hins vegar hafi orðið snörp hrina með um 100 skjálftum 31. júlí. „Það er ekkert óhugsandi að sú hrina hafi opnað sprungur og lokað öðrum og jarðhitasvæðið hafi breyst.“

Þarna sé aftur á móti ekki mikil hætta á ferðum, nema hugsanlega fyrir kafara, enda geti vatnið verið mjög heitt og Kleifarvatn sé vinsælt meðal kafara. Gassérfræðingur á Veðurstofunni sé meðvitaður um stöðuna og fer líklega á næstunni og skoðar hvort breytingar hafi orðið í vatninu.

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV
stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV