Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Varar við þjóðarmorði í Miðafríkulýðveldinu

23.08.2017 - 04:50
epa05825123 UN under-secretary-general for humanitarian affairs, Stephen O'Brien, speaks to reporters during a news conference at Sana'a International Airport, Yemen, 02 March 2017. O'Brien visited Yemen for three days to see the
 Mynd: EPA
Þjóðarmorð vofir yfir í Miðafríkulýðveldinu og brýnt er að fjölga í friðargæsluliði Sameinuðu þjóðanna þar í landi ef ekki á illa að fara. Þetta sagði Stephen O'Brien, yfirmaður mannúðar- og hjálparstarfs Sameinuðu þjóðanna á lokuðum fundi Öryggisráðs samtakanna á þriðjudag. Frakkar báðu um aukafund í Öryggisráðinu til að ræða ástandið í Miðafríkulýðveldinu við O'Brien, sem heimsótti landið nýverið.

AFP-fréttastofan hefur eftir ónefndum erindreka sem var á fundinum, að O'Brien hefði sagt teikn á lofti um að þjóðarmorð gæti verið í aðsigi í Miðafríkulýðveldinu og eggjað ráðið til að leggja meira af mörkum til að freista þess að koma í veg fyrir það. O'Brien ítrekaði þar með ummæli sama efnis, sem hann viðhafði á öðrum fundi á vegum Sameinuðu þjóðanna, þar sem hann hvatti samtökin til að fjölga lögreglu- og friðargæsluliðum á þeirra vegum í þessu fátæka og afar róstusama ríki.

Um 12.500 her- og lögreglumenn eru þar nú á vegum Sameinuðu þjóðanna. Hlutverk þeirra er að verja óbreytta borgara og styðja við bakið á stjórn Faustin-Archange Touadera, sem kosinn var forseti landsins í fyrra. Erindrekinn ónefndi hefur eftir O'Brien að um 600.000 af 4,5 milljónum íbúa landsins séu nú á vergangi, um 40 prósentum fleiri en á sama tíma í fyrra.

Sagði hann ofbeldi fara vaxandi á æ fleiri stöðum í landinu auk þess sem það beindist í vaxandi mæli að starfsfólki hjálparsamtaka. Þá staðfesti hann að enn vantaði mjög mikið upp á, Sameinuðu þjóðirnar hefðu fengið þá ríflega 50 milljarða króna sem óskað var eftir til að fjármagna hjálparstarf í landinu.  

Miðafríkulýðveldið er eitt fátækasta ríki heims. Blóðug átök brutust þar út 2013, á milli vígasveita múslíma og kristinna. Þáverandi forseta, hinum kristna Francois Bozize, var steypt af stóli af nokkrum vopnuðum sveitum múslíma, sem börðust saman undir heitinu Seleka. Stjórn uppreisnarmanna varð þó ekki langlíf því Frakkar sendu herlið til þessarar fyrrverandi nýlendu sinnar, sem steypti Seleka-stjórninni af stóli. Í framhaldinu upphófust blóðugar hefndaraðgerðir vígasveita kristinna. Viðsjár hafa verið miklar og mannskæðar allar götur síðan og nú berjast vopnaðar sveitir þessara fylkinga hatrammlega um völd og auðlindir í landinu.  
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV