Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Varar við lífshættulegum jarðhita íshellum

18.02.2018 - 18:55
Mynd með færslu
 Mynd: Arnþór Snær Þorsteinsson - RÚV
Fólk getur dáið úr gaseitrun inni í íshellum sem myndast við jarðhita eins og nýi hellirinn í Hofsjökli, segir jarðeðlisfræðiprófessor. Að auki sé þar hrunhætta og því eigi ekki að fara þangað með stóra hópa.

Nýlega uppgötvaðist tilkomumikill íshellir í Blágnípujökli, sem gengur suðvestur úr Hofsjökli. Í fréttum fyrir viku var sagt frá honum og í kjölfarið gaf Veðurstofan út viðvörun um hellinn
„Þessi hellir er varasamur. Þetta er jarðhitahellir. Það er jarðhiti sem bræðir ísinn. Og það er tvennt sem veldur því að svoleiðis hellir er miklu hættulegri heldur en til dæmis þessir hellar sem eru í Breiðamerkurjökli sem að eru myndaðir af vatnsrennsli á sumrin og standa síðan svona þurrir á veturna,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands. 
Í jarðhitahellum eru hættulegar lofttegundir eins og brennisteinsvetni, brennisteinsdíoxíð og kolmónoxíð: 
„Ef fólk fær of mikinn skammt af því að þá getur það verið lífshættulegt. Það getur liðið yfir fólk og ef það er of lengi inni í slíku þá bara getur fólk dáið.“
Og auk þess bráðnar ísinn stöðugt vegna jarðhitans: 
„Þannig að hrunhætta í slíkum helli er miklu meiri heldur en í íshelli sem er myndaður af vatnsrennsli á sumrin.“
Magnús Tumi segir að enginn eigi að fara inn í jarðhitahelli nema sá sem viti nákvæmlega hvað hann er að gera og vera þurfi með gasmæli og gasgrímur meðferðis. 
„Það á ekki að fara með stóra hópa af fólki inn í slíka hella. Ég held að það sé ekki skynsamlegt að vera með útgerð á hella af því tagi.“

Gerðu áhættumat á íshellum

Lítil þekking er á íshellum og féllust Magnús Tumi og fleiri hjá Jarðvísindastofnun HÍ á ósk Vatnajökulsþjóðgarðs og gerðu skýrslu um áhættumat íshella. Skipulagðar ferðir í íshella í Breiðamerkurjökli eru mjög vinsælar. 
„En með varkárni og svona að fylgja reglum sem að til dæmis er verið að innleiða við Breiðamerkurjökul að þá á það nú að vera alveg ásættanlegt að fólk fari í slíka hella.“

Mynd með færslu
 Mynd: Arnþór Snær Þorsteinsson - RÚV
Íshellirinn í Blágnípujökli suðvestur af Hofsjökli er myndaður af jarðhita
íshellir á Breiðamerkursandi
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Íshellir í Breiðamerkurjökli suður af Vatnajökli myndast við vatnsrennsli.
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Freyr Arnarson - RÚV
Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðiprófessor við HÍ.
Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV