Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Varar Íslendinga við að rukka of mikið

29.03.2016 - 17:03
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Íslendingar ættu að fara afar varlega í að auka gjaldtöku á ferðamönnum, segir írskur sérfræðingur í kauphegðun. Það sem sitji eftir í minningunni af ferðalaginu til Íslands sé kreditkortareikningurinn.

Mikið hefur verið rætt um gjaldtöku af ferðamönnum. Nokkrir landeigendur hafa reynt að rukka fyrir aðgang að vinsælum náttúruperlum og aðrir ætla að rukka fyrir bílastæði í sumar. Þá hefur verið fjallað um verðhækkun á veitingum á vinsælum ferðamannasölum og hótel í miðborg Reykjavíkur fóru að rukka gesti fyrir kranavatnið.

Ken Hughes, sérfræðingur í neytenda- og kauphegðun, talaði nýverið á fyrirlestri hjá Samtökum verslunar og þjónustu. Hann segir að Íslendingar ættu að fara mjög varlega. „Í dag búum við í samfélagi þar sem við fáum allar upplýsingar frá jafningjum. Fólk byggir ákvarðanir sínar um ferðalög á umsögnum jafningja, á samfélagsmiðlum, á Facebook, þar talar fólk um staðina sem það hefur heimsótt. Fyrir 20 árum byggðum við þessar ákvarðanir á ferðaþáttum og tímaritum en í dag hlustum við mun frekar á vini okkar og vinnufélaga. Það síðasta sem þið viljið er að ferðamenn komi frá Reykjavík og segi: „Þetta var fínt en maður er rukkaður fyrir allt!“ Það er það sem fólk man eftir og talar um á samfélagsmiðlum og þá er ferðamannavaran ykkar allt í einu í hættu,“ segir Hughes.

Hann leggur til að aðeins sé rukkað fyrir hótelgistingu, veitingastaði, útsýnisferðir og annað þvíumlíkt. „Ef þið byrjið að rukka fyrir hvert einasta smáatriði þá man fólk eftir því. Fólk man eftir því hversu oft það þurfti að taka upp veskið, ekki hvað allt kostaði heldur hversu oft það borgaði. Þetta er kallaður borgunarvekur. Svo má ekki gleyma því að kreditreikningurinn kemur kannski mánuði eftir ferðina. Það var gaman, ég man eftir góðu hlutunum og skoða myndirnar. Eftir viku hefur minningin fölnað og eftir tvær vikur fölnar hún meira en fjórum vikum síðar fæ ég kreditkortareikninginn og hugsa: „Vá!“ ...Og nú er kreditkortareikningurinn síðasta minningin mín um Reykjavík,“ segir Hughes.