Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Varaforsetar byrjaðir að vinna í Klausturmáli

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Nýir varaforsetar Alþingis, Steinunn Þóra Árnadóttir og Haraldur Benediktsson, hafa nú formlega tekið við Klausturmálinu og fengið afhent gögn. Upptökurnar af Klaustri eru ekki þar á meðal.

Kosin á þriðjudag

Steinunn Þóra, þingmaður Vinstri grænna, og Haraldur, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, voru kosin sérstakir aukavaraforsetar Alþingis á þriðjudag. Þau hafa það eina verkefni að fjalla um beiðni nokkurra þingmanna um að koma Klausturmálinu áfram til umfjöllunar í siðanefnd þingsins, þar sem forsætisnefnd, sem venjulega fer með slík mál, lýsti sig vanhæfa. 

Hafa fengið afhent gögn

Steinunn Þóra segir í samtali við fréttastofu að þau Haraldur hafi hist og fengið afhent gögn málinu tengd, þar á meðal eru siðareglur þingsins og lagafrumvörp sem þær byggjast á, sem og erindi þingmannanna til forsætisnefndar um að siðanefnd taki málið fyrir.

Ekki náðist í Harald í morgun, en Steinunn Þóra vildi lítið tjá sig efnislega um störf þeirra varðandi Klausturmálið, sem er að vonum eðlilegt þar sem nær allir þingmenn Alþingis eru yfirlýstir vanhæfir til þess að fjalla um Klausturmálið fyrir það að hafa tjáð sig opinberlega um það á einhverjum vettvangi. Hún staðfesti þó að þau hefðu ekki fengið upptökurnar af Klaustri afhentar, en vildi ekki svara hvort þau ætluðu að hlusta á þær. Nú hafa þau formlega tekið við málinu og hafið vinnu við að skoða siðareglurnar. Enginn tímarammi liggur fyrir þar sem brýnt sé að vanda verulega til verka og málið sé án fordæma. 

Þingmenn Miðflokksins og þeir tveir sem standa utan flokka hafa mótmælt þessu fyrirkomulagi harðlega og segja það brot á þingsköpum.