Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Varaformaðurinn væri að ganga bak orða sinna

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Gunnar Bragi Sveinsson, ráðherra Framsóknarflokksins, segir yfirlýsingu varaformanns flokksins á miðstjórnarfundinum í gær hafa komið sér og öðrum fundargestum á óvart. Hann telur ólíklegt að Sigurður Ingi fari fram gegn Sigmundi Davíð - geri hann það sé forsætisráðherra að ganga á bak orða sinna.

 

Það vakti mikla athygli þegar fréttir bárust af því að Sigurður Ingi hefði óvænt flutt stutta tölu á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins á Akureyri í gær en ekki hafði verið gert ráð fyrir honum á mælendaskrá. Þar lýsti Sigurður Ingi því yfir að hann ætlaði ekki að gefa kost á sér sem varaformaður flokksins við óbreytta stjórn hans. 

Framsóknarmönnum var nokkuð brugðið við þessi ummæli og Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegsráðherra, segir þessa yfirlýsingu forsætisráðherra hafa komið sér á óvart. „Já, hún kom mér á óvart og hún kom, held ég, öllum fundarmönnum á óvart. Það var ekki að sjá að nokkur hefði átt von á þessu.“

Gunnar Bragi telur ólíklegt að Sigurður Ingi fari fram gegn Sigmundi - geri hann það sé forsætisráðherra og varaformaður flokksins að ganga bak orða sinna. „Já, það tel ég nú. Yfirlýsingar hans hafa verið með öðrum hætti - ég hef í raun enga trú á því að Sigurður Ingi geri slíkt [fari fram gegn Sigmundi].“

Ráðherrann segir það hafa komið ágætlega fram á fundinum hversu breiðan stuðning formaðurinn hefur í miðstjórninni. „Ég vona að menn setjist nú niður og jafni þann ágreining sem er til staðar og finni út hvar hann er. Ég held að það sé best fyrir alla.“