Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Varað við skriðuhættu á Borgarfirði eystra

25.11.2014 - 15:11
Mynd með færslu
 Mynd:
Veðurstofa Íslands varar fólk við að dvelja í þremur frístundahúsum á Borgarfirði eystra vegna hættu á skriðuföllum. Um er að ræða Geitavík eitt og tvö og Skriðuból. Sprungur hafa myndast í jarðvegi ofan við bæina í Stórkriðnadal.

Tungan æddi fram í rigningum

Bryndís Skúladóttir býr á Framnesi sem er rétt utan við hættusvæðið. Hún uppgötvaði hræringarnar í sumar og gerði Veðurstofunni viðvart. Jarðfræðingar fóru austur, rannsökuðu Stórskriðnadalinn og staðfestu talsverða hreyfingu á jarðveginum. Bryndís fylgist með fyrir Veðurstofuna og segir að mælistikur í jarðtungunni hafi færst fram um 25 sentímetra í miklum rigningum í síðustu viku og það hafi aukið áhyggjur manna.  „Dalurinn og allt þetta svæði er á iði og tungan sígur fram af dalbrúninni,“ segir Bryndís.

 

Á þessari mynd má sjá sprunginn jarðveg og hluta tungunnar sem hangir fram af dalbrúninni.

Melurinn eins og skjöldur

Hún segir að skriður hafi einnig fallið niður af fjallsbrún ofan við dalinn og minni aurskriður hér að þar í dalnum. Sjálf telur hún sig nokkuð örugga á Framnesi. „Það er melur hér fyrir ofan sem er gamalt framhlaup úr Stórskriðnadalnum og hann virkar sem skjöldur fyrir bæinn,“ segir Bryndís. 

Harpa Grímsdóttir, fagstjóri ofanflóðavaktar Veðurstofunnar, segir að töluvert magn jarðvegs sé á hreyfingu. „Líklegast er að þetta komi niður í minni skriðum en við útilokum ekki að nokkuð stór skriða komi úr dalnum. Það hefur verið mikil úrkoma þarna í haust og safnast saman í jarðveginum," segir Harpa.

Efsti hluti tungunnar.

Vetrarfrost gætu stöðvað jarðskrið

Hún tekur fram að ekki sé talið að sprungunar nái niður í berggrunninn heldur sé það jarðvegurinn þar ofna á sem sé á hreyfingu. Hún á von á því að hreyfingin minnki og hættan líði hjá þegar kólnar og frystir en óvenju hlýtt hefur verið það sem af er vetri.