Varað við gríðarlegu úrhelli í Bretlandi

14.02.2020 - 13:37
epa06702222 People struggle with their umbrellas as they pass a view of St Paul's Cathedral during wet weather in London, Britain, 30 April 2018.  EPA-EFE/NEIL HALL
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Breska veðurstofan hefur gefið út gular og appelsínugular viðvaranir vegna óveðurslægðarinnar Denna. Þær gilda í sólarhring frá því síðdegis á morgun, laugardag, í norðvestur- og suðurhluta Englands.

Spáð er hvassviðri og mikilli rigningu. Útlit er fyrir að það rigni álíka á einum sólarhring og alla jafna á einum mánuði sums staðar í landinu. Varað er við því að Denni eigi eftir að valda samgöngutruflunum, meðal annars í norðvesturhlutanum þar sem jörð er enn gegnsósa eftir að lægðin Ciara lét til sín taka í síðustu viku. Félag bifreiðaeigenda varar bílstjóra við því að skyggni verði lítið meðan úrhellið gengur yfir.

Sextán flóðaviðvaranir hafa verið gefnar út vegna Denna. Í höfuðborginni Lundúnum er gert ráð fyrir álíka rigningu á einum sólarhring og fellur á þremur vikum í meðalári.

Denni er fjórða óveðurslægðin á þessum vetri sem Bretar gefa nafn.

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV