Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Vara við nýrri starfsmannaleigu

24.04.2019 - 20:59
Mynd með færslu
 Mynd:
Forsvarsmenn verkalýðsfélagsins Eflingar vara við nýstofnaðri starfsmannaleigu og hvetja fólk til að eiga ekki viðskipti við hana. Starfsmannaleigan Seigla var stofnuð 30. janúar og skráð hjá fyrirtækjaskrá Ríkisskattstjóra um miðjan síðasta mánuð.

Fjallað er um nýju starfsmannaleiguna í færslu á vef Eflingar þar sem einnig er fjallað um starfsmannaleiguna Menn í vinnu. Þar er fullyrt að forsvarsmenn Manna í vinnu hafi stofnað nýja starfsmannaleigu og kosið að kalla hana Seiglu. „Við hvetjum öll fyrirtæki til að stunda ekki viðskipti við þetta nýjasta afsprengi vinnumarkaðarins,“ er haft eftir Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formanni Eflingar. Hún segir að það myndi spara stéttarfélaginu talsverðan lögfræðikostnað ef fyrirtæki sniðgengju starfsmannaleiguna. 

Einn maður er skráður fyrir öllu hlutafé í Seiglu. Á Vísi segir að hann beri nafn sonar Höllu Rutar Bjarnadóttur, eins forsvarsmanna Manna í vinnu. Hann er ekki skráður fyrir númeri í símaskrá. Ekki náðist í Höllu Rut við vinnslu fréttarinnar. Í frétt Vísis segir að hún hafi ekkert viljað tjá sig um nýju starfsmannaleiguna og hvorki staðfesta né neita að hún tengist Mönnum í vinnu.

Vinnumálastofnun lagði fyrir skemmstu 2,5 milljóna króna sekt á Menn í vinnu. Það er í fyrsta sinn sem slík sekt er lögð á fyrirtæki, í samræmi við nýlega reglugerð.