Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vara fólk við að þiggja drykki af ókunnugum

13.02.2019 - 21:30
Mynd: CC0 / Pixabay
Lögreglan vill vara fólk sérstaklega við því að þiggja drykki af ókunnugum á skemmtistöðum. Nokkur mál eru til skoðunar, þar sem grunur leikur á að konum hafi verið byrluð ólyfjan.

Lögreglan á Suðurnesjum hefur til rannsóknar ætlað kynferðisbrot þar sem grunur leikur á að konu hafi verið byrluð ólyfjan á skemmtistað í Reykjanesbæ, þannig að hún hafi ekki getað spornað við því að brotið væri gegn henni. 

„Það er örlítið síðan það gerðist en á meðan rannsókn stendur er ekki hægt að gefa upplýsingar af mörgum ástæðum,“ segir Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum.

Í tilkynningu segir að lögreglu hafi jafnframt borist af því spurnir að fleiri konum hafi verið byrluð ólyfjan á skemmtistöðum í umdæminu að undanförnu, án þess að kærur hafi borist vegna þess.

„Ég get ekkert tjáð mig um það annað en að maður hefur heyrt að það hafi komið tilkynningar til neyðarmóttöku og annarra varðandi slík mál,“ segir Ólafur Helgi.

Eru það þá mál sem hafa komið upp á þessu svæði?

„Ég er ekki að tala um þetta svæði eingöngu.“

Alvarlegt brot

Ólafur Helgi vill ekki tjá sig um það á þessu stigi hvort einhver hafi verið handtekinn í tengslum við rannsókn þessara mála.

„Það er ástæða til þess að vara fólk við því á skemmtistöðum að þiggja drykki af ókunnugum eða að gá ekki að því hvar drykkirnir eru. Við erum að rannsaka þetta, við erum að skoða alla þætti málsins, og við þurfum að biðja alla að hafa varann á, og þar á meðal veitingamenn.“

Lögreglan vill beina því til starfsfólks á skemmtistöðum að fylgjast vel með gestum, kalla eftir aðstoð lögreglu og aðstoða gesti ef grunur er um lyfjabyrlun.

„Það er mjög alvarlegt þegar upp koma mál þar sem verið er að byrla aðallega konum einhverja ólyfjan til þess að misnota þær í kynferðislegum tilgangi. Það er mjög alvarlegt, það er alvarlegt brot og getur haft í för með sér alvarlega refsingu,“ segir Ólafur Helgi.

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV