
Var of þungur fyrir brúna yfir Vatnsdalsá
Þetta kemur fram í skýrslu nefndarinnar um slys sem varð á brúnni yfir Vatnsdalsá. Morgunblaðið greindi fyrst frá. Brúin hrundi um miðjan ágúst á síðasta ári þegar hún lét undan þunga flutningabíls sem ók yfir hana.
Í skýrslunni kemur fram að engar sérstakar þungatakmarkanir hafi verið á Vatnsdalsvegi né á brúnni og því leyfilegt að aka yfir hana með 40 tonna heildarþunga - að mati nefndarinnar var heildarþyngd flutningabílsins með festivagninum 57 tonn.
Nefndin telur jafnframt að ekki hefði átt að leyfa 40 tonna álagslest á brúnni til að tryggja að hún hefði sambærilegt öryggi og aðrar brýr og þá fannst skemmd á þrýstistöng sem skerti burðargetu hennar.
Við rannsókn á slysinu kom í ljós að öryggi burðarþols brúarinnar var ábótavant - heilbrigðis-og öryggisáætlun, sem skilað var inn til verkkaupa, var ófullnægjandi og slysið var ekki tilkynnt til Vinnueftirlitsins. Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar segir enn fremur að ökumaður flutningabílsins hafi ekki verið í belti - hann kastaðist til þegar slysið varð og hlaut nokkra áverka.