Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Var búin að gefa upp alla von

10.05.2013 - 18:00
Mynd með færslu
 Mynd:
Konu var bjargað eftir 17 daga í rústum fataverksmiðju í Bangladess. Konan reyndi dögum saman að gera björgunarmönnum viðvart eftir að hún heyrði í þeim fyrir ofan. Meira en 1000 hafa nú fundist látnir og þykir með ólíkindum að konan hafi lifað af.

Björgunarmenn eru enn að störfum í rústum verksmiðjunnar og finna sífellt fleiri lík. Þeir voru búnir að gefa upp alla von um að finna fleiri á lífi þegar þeir heyrðu bank í fjarska og slökktu á vinnuvélum sínum. Þá heyrðu þeir greinilega í konu sem hafði grafist undir rústunum og sagðist heita Reshma. Hún sagðist nánast ómeidd og þeir slökuðu til hennar vatni, kexkökum og súrefni. Björgunarmennirnir fóru síðan mjög varlega þegar þeir grófu hana upp, af ótta við að meira brak myndi hrynja yfir hana, en það hafðist að lokum.

Reshma segist hafa heyrt björgunarmennina athafna sig í marga daga en sama hvað hún reyndi tókst henni ekki að framkalla nógu mikinn hávaða til að þeir heyrðu í henni. 

Reshma segist hafa sparkað og slegið frá sér af öllu afli til að reyna að framkalla hávaða, og líka reynt að hrópa á hjálp, en ekkert dugði til fyrr en í dag.  

Hún komst í lítilræði af vatni og reyndi að skammta það eftir fremsta megni en var búin að missa vonina. Hún segist ekki hafa búist við að líta dagsins ljós á ný, þetta væri hennar síðasta. 

Reshma er ótrúlega vel á sig komin eftir mannraunina. Móðir hennar og systur tóku á móti henni og fóru með henni á nærliggjandi sjúkrahús þar sem hún fær að jafna sig.