Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

„Vanur því að hleypa konum fram fyrir mig“

Mynd: Hilmar Kári Hallbjörnsson / RÚV
Breyting var gerð á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi í gær á fundi kjördæmisráðs. Þá var samþykkt að færa Bryndísi Haraldsdóttur í annað sætið í kjördæminu. Við það færast þrír karlmenn niður um eitt sæti. Jón Gunnarsson, sem var annar í prófkjörinu verður í þriðja sæti. Óli Björn Kárason fer úr þriðja í fjórða sæti og Vilhjálmur Bjarnason fer úr fjórða sæti í það fimmta.

Vilhjálmur var gestur Morgunútvarpsins í morgun og sagðist hann sáttur við niðurstöðu fundarins. Hann væri þó hvorki ánægður með hana eða óánæðgur.

„Ég verð bara að taka þennan slag. Við vorum á mörkum þess að ná sex síðast og við ætlum okkur að ná sex núna,“ segir Vilhjálmur. Hann telur líklegt að hann verði áfram á þingi þrátt fyrir að hafa verið færður niður um sæti. 

„Ég er orðinn vanur því að hleypa konum fram fyrir mig,“ segir Vilhjálmur. Hann hefur áður lýst yfir efasemdum um að breyta niðurstöðum prófkjöra eftir á. 

„Ég er á því ennþá að menn skuli halda sig við helstu niðurstöðu prófkjöra. Það er erfitt að draga fólk í prófkjör ef það á von á hvaða niðurstöðu sem er.“ Menn geti ekki verið óánægðir með niðurstöðu prófkjöra.

„Svona var bara niðurstaðan í gær. Við skulum segja að ég sé sáttur. En ég er hvorki ánæðgur né óánæðgur,“ segir Vilhjálmur, sem bætir því að ákvörðunin hafi verið gerð í samráði við sig. 

„Ég vann þetta sæti á eigin forsendum og hafði enga vél á bak við mig, bara eigin kynningu og eigin skírskotun. Þetta var niðurstaðan og þetta var niðurstaðan í gærkvöldi.“

Aðspurður um hvort listinn sé sterkari en áður segir Vilhjálmur það vera mat þeirra sem samþykkti hann í gærkvöldi. 

Guðmundur Björn Þorbjörnsson
dagskrárgerðarmaður