Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vantraust hafi ekki áhrif á stöðu Páls

14.06.2018 - 12:32
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fulltrúaráð Sjálfstæðisfélagsins í Vestmannaeyjum lýsir yfir vantrausti á Pál Magnússon. Þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, segir þetta ekki hafa formleg áhrif á stöðu Páls sem þingmanns.

„Staðan er í meginatriðum óbreytt,“ segir Birgir Ármannsson, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins. „Flokksfélög og fulltrúaráð á hverjum stað eru auðvitað sjálfstæð um sínar ákvarðanir. Það er hins vegar skýrt að þingmenn flokksins sitja í kjördæmisráðum, flokksráði og öðrum stofnunum flokksins, samkvæmt því sem kveður á um í skipulagsreglum, þannig að það hafa engar breytingar orðið með það, og heldur ekki á stöðu hans sem kjörins þingmanns.“

„Hvað sem gerist á vettvangi einstakra flokksfélaga eða fulltrúaráða hefur engin formleg áhrif á stöðu þingmanna að öðru leiti,“ segir Birgir.

Fulltrúaráðið segist ekki geta stutt Pál sem þingmann Suðurkjördæmis. Er honum sætt sem þingmanni Sjálfstæðisflokks í kjördæminu? „Að sjálfsögðu, hann er auðvitað kjörinn þingmaður til fjögurra ára fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Suðurkjördæmi og átök í hans heimabæ - hversu sár sem þau kunna að vera - hafa ekki áhrif á þá stöðu,“ segir Birgir.