Vantraust á oddvita fjarlægt af vefsíðu

Mynd með færslu
 Mynd:

Vantraust á oddvita fjarlægt af vefsíðu

29.05.2014 - 10:22
Stjórn ungra framsóknarmanna, SUF, birti í gærkvöld harðorða yfirlýsingu þar sem vantrausti var lýst á oddvita lista Framsóknar og flugvallavina, Sveinbjörgu Birnu Sveinbjarnardóttur. Yfirlýsingin var fjarlægð um hálftíma síðar.

Í yfirlýsingunni lýsti stjórn SUF yfir „fullkomnu vantrausti á oddvita lista Framsóknar og flugvallavina, Sveinbjörgu Birnu Sveinbjarnardóttur, vegna framgöngu hennar í málefnum sem varða lóðarúthlutanir fyrir trúfélög, sem gengur í berhögg við grunnstefnu Framsóknarflokksins um virðingu fyrir einstaklingnum og að ekki skuli mismunað eftir kynþætti, kynferði, tungu, trú, þjóðerni, kynhneigð, búsetu eða stjórnmálaskoðunum.“ Samtök ungra framsóknarmanna sögðust í þessu sambandi minna á jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar um að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. 

Yfirlýsingin var fjarlægð án skýringa um hálftíma eftir að hún birtist á heimasíðu SUF. Hlekkur á hana hafði þá jafnframt birst á facebook síðu SUF og hafði Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir, sem skipar 2. sæti á lista Framsóknar og flugvallavina í Reykjavík, ritað athugasemd við færsluna, sem hljóðaði svo: „Krúttlegt.“

Í pistli  sem Guðrún Bryndís Karlsdóttir ritar í Kvennablaðið lýsir hún samskiptum sínum við flokksmenn í Framsóknarflokknum. Guðrún Bryndís skipaði fyrr á árinu 2. sæti á framboðslista Framsóknarflokksins í Reykjavík. Í pistli hennar kemur fram að nokkrir samflokksmanna hennar í Framsóknarflokknum hafi látið í ljósi andstöðu við byggingu mosku í Reykjavík. 

Hvorki náðist í formann né varaformann SUF í morgun og því hafa ekki fengist skýringar á því af hverju vantraustsyfirlýsingin var fjarlægð af vefsíðu samtakanna í gær.

Samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar, sem Fréttablaðið og Stöð 2 birtu í dag og gerð var í gær og í fyrradag, hefur stuðningur við Framsóknarflokkinn aukist á síðustu dögum og eru allar líkur á að flokkurinn nái einum manni í borgarstjórn. 

Tengdar fréttir

Sveitarstjórnarkosningar

Framsókn næði inn manni í borgarstjórn

Stjórnmál

Ólga innan Framsóknar vegna ummæla oddvita