Vantar viðbrögð við áföllum í fjármálaáætlun

24.03.2019 - 12:32
Mynd með færslu
 Mynd:
Fyrrverandi fjármálaráðherra segir ekkert í nýrri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar um hvernig bregðast eigi við ófyrirséðum áföllum eins og í flugrekstri. Hún segir hræðast ummæli fjármálaráðherra um að skera þurfi niður ef illa fer fyrir Wow air. Það þýði að þeir, sem þurfi að þjónustu ríkisins að halda, þurfi að bera niðursveifluna. Í stað þess ætti að falla frá lækkun bankaskatts eða huga að auðlegðarskatti og auðlindargjöldum. Óskhyggja og ónákvæmni, segir þingmaður Pírata um áætlunina.
Mynd með færslu
Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. Mynd: RÚV
Oddný G. Harðardóttir.

Alþingi fjallar á þriðjudag um ríkisfjármálaáætlun sem kynnt var í gær. 

„Ég hef áhyggjur af því að það er ekkert sagt um það hvernig eigi að bregðast við ófyrirséðum áföllum,“ segir Oddný G. Harðardóttir fyrrverandi fjármálaráðherra og fulltrúi Samfylkingarinnar í efnahags- og viðskiptanefnd þingsins.

Hún segir að ríkisstjórnin hafi sett sér fjármálastefnu sem gangi út á að skila afgangi og á næsta ári eigi hann að vera 29 milljarðar. Þegar svo búið sé að taka tillit til verðbólgu og kerfislægra breytinga þá þá geri það fimm milljarða króna sem eigi að spara. Svo sé sett viðbótaraðhald sem beinist að ríkisstarfsmönnum og stórum kvennastéttum hjá ríkinu. 

„Þannig að ef að þau gera kjarasamninga sem sem fer fram yfir hálft prósent umfram verðlag þá þurfa ráðuneytin að bera þann kostnað. Og við vitum ekkert. Það stendur hvergi í áætluninni hvað það muni þýða.“

Til dæmis hvort niðurskurður komi niður á þeim sem þurfi á þjónustu ríkisins að halda eins og sjúklingum og börnum. Hún segir ekkert í fjármálaáætluninni sem gæti liðkað fyrir kjarasamningum. Þegar sé búið að kynna skattalækkanir sem feli í sér tæpar sjö þúsund krónur á mann óháð því hvort fólk hafa margar milljónir á mánuði eða ekki. Húsnæðisstuðningurinn sé ekki eins og vonast hafi verið til og barnabæturnar með bröttum skerðingum á lágar millitekjur. 
Svo sé ekki tekið á óvissuþáttunum, segir Oddný: 

„Það er ekki teiknuð upp sviðsmynd um hvað muni gerast til dæmis ef Wow fer á hausinn. En auðvitað hljótum við í þinginu að taka það upp og meta áhrifin á velferðarkerfið. En það sem að hræðir mig eru svör fjármálaráðherrans þegar hann segir: Ja, ef að Wow fer á hausinn þá þurfum við að taka á því á útgjaldahliðinni. Ég hefði viljað segja: Ef Wow fer á hausinn þá hættum við við að lækka bankaskattinn. Það eru sjö milljarðar. Þau förum við í auðlegðarskatt eða auðlindagjöld en látum ekki þá sem þurfa á þjónustu ríkisins að halda að bera niðursveifluna.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Björn Leví Gunnarsson.

Björn Leví Gunnarsson fulltrúi Pírata í fjárlaganefnd Alþingis segir erfitt að átta sig á ríkisfjármálaáætluninni: 

„Í heildina á litið þá er þetta svona ákveðin óskhyggja eins og það birtist í þessari fjármálaáætlun. Þeir vonast til þess að það fari ekki allt í havarí með Wow til dæmis. Og þetta er allt [með] voðalega ónákvæmum tölum og útskýringum og yfirborðskennt. Það er í rauninni lítið sem maður getur gripið í til þess að segja, þetta er svona eða hinsegin.“

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi