Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Vantar kraft og frumleika í Hafið

Mynd: Hörður Sveinsson / Þjóðleikhúsið

Vantar kraft og frumleika í Hafið

03.01.2018 - 12:42

Höfundar

Jólasýning Þjóðleikhússins, Hafið eftir Ólaf Hauk Símonarson, fær ekki góðar móttökur hjá gagnrýnendum Menningarinnar. Bryndís Loftsdóttir og Snæbjörn Brynjarsson segja að uppsetningin sé ekki nógu metnaðarfull og góður efniviður komist illa til skila vegna skorts á heildarsýn.

Hafið er eitt þekktasta verk íslenskrar leiklistarsögu. Það var fyrst frumflutt í Þjóðleikhúsinu fyrir aldarfjórðungi við miklar vinsældir og eftir því var gerð kvikmynd. Hafið hefur ferðast marga hringi í kringum landið og hefur nú verið sviðsett í nýrri gerð í leikstjórn Sigurðar Sigurjónssonar.

„Þetta á alveg ennþá erindi,“ segir Snæbjörn Brynjarsson um leikverkið, „hvort sem það er kynferðisofbeldi eða einhvers konar hnignun lítilla þorpa og svo auðvitað kvótakerfið.“ Honum finnst sýningin samt ekki nógu metnaðarfull. „Hún er eiginlega eins og æfður leiklestur frekar en eiginleg sýning og það er synd. Því það er margt gott í verkinu.“

Mynd með færslu
 Mynd: Hörður Sveinsson - Þjóðleikhúsið

Bryndís Loftsdóttir segist óska þess að geta verið jákvæðari. „Það er bara þannig að þetta er svolítið dauð sýning. Það vantar kraftinn og frumleikann. Það vantar átökin, maður heldur ekki með neinum og það hreyfir lítið við manni.“ Hún segir samt að verkið hefði mátt við minni dramatík. „Það er mjög dramatískt og kannski einum of. Það er svo mikil dramatík á bakinu á öllum að karakterarnir hálfsvigna undan þessu.“

Snæbjörn álasar leikstjórninni. „Hún er alltof sundurlaus. Maður horfir á búningana og sér ekkert samhengi. Það er engin sögn í þeim eða í sviðsmyndinni. Það er eins og það sé ekkert verið að pæla í heildarsýninni og hvað það er sem þau vilja koma til skila nákvæmlega.“ Bryndís er sama sinnis. „Það einkennist af úrræðaleysi og gamaldags leikstjórn.“