Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Vantar fólk með hjúkrunarmenntun

29.12.2018 - 12:38
Mynd með færslu
 Mynd: Kristín Sigurðardóttir - RÚV
Brýnt er að fjölga hjúkrunarmenntuðu fólki í Skaftafellssýslum segir Gunnar Sigurjónsson varaformaður björgunarsveitarinnar Kára í Öræfum, sem var með fyrstu mönnum á slysstað við Núpsvötn í fyrradag.

Oddur Árnason yfirlögregluþjónn á Suðurlandi segir að kannað verði í dag hvort hægt sé að ræða við bræðurna sem lentu í slysinu. Einhverjir ættingar fólksins eru komnir til landsins og fleiri eru væntanlegir. Í yfirlýsingu frá fjölskyldu fólksins sem birt var í breskum fjölmiðlum er íslenskum, breskum og indverskum stjórnvöldum þökkuð góð samvinna, aðstoð og stuðningur, sérstakar þakkir eru færðar fyrir að flytja hin slösuðu með þyrlu á sjúkrahús og fyrir að tryggja nauðsynlega aðhlynningu. Fjölskyldan sé í sárum og óski eftir næði til að syrgja í friði. 

Gunnar Sigurjónsson varaformaður björgunarsveitarinnar Kára í Öræfum segir aðkomuna á slysstað hafa verið erfiða.

„Jú, hún var mjög erfið. Það vildi svoleiðis til að ég var mjög skammt frá þessu, var á leiðinni yfir Skeiðarársand þegar útkallið kom.
Þannig að þú hefur verið kominn á staðinn með fyrstu mönnum?
Já, með þeim fyrstu, það voru þrír komnir áður, hjúkrunarfræðingur á Klaustri, lögregla og einn annar.“

Réttu ári fyrir slysið varð annað alvarlegt slys á svæðinu þegar tveir kínverskir ferðamenn létust og fjöldi slasaðist þegar rúta sem fólkið var í valt. Gunnar var einnig á vettvangi þess slyss.Hann segir brýnt að bæta vegi og útrýma einbreiðum brúm.

„En það kannski dugar ekki til að afstýra öllum slysum. En svo vantar okkur hérna á þessu svæði fleira hjúkrunarmenntað fólk. Það er bara einn hjúkrunarfræðingur á Klaustri og svo er annar á Höfn og þetta eru yfir 200 kílómetrar á milli. Svo er hún á Klaustri bara ein manneskja sem sinnir þessu stóra svæði, kemur í öll útköll þannig að það mæðir mikið á þessu fólki sem að starfar við þetta og það þarf bara að fjölga fólkinu sem að er á vaktinni.“

Gunnar segir umferðina hafa aukist gríðarlega og verkefnin séu mörg þótt ekki séu stórslys. Björgunarsveitin sé mikilvægur hlekkur í starfinu.

„Já, þær eru það. Við erum alltaf kallaðir út á þessu svæði þegar verða alvarleg slys eða veikindi og þetta er fátt fólk. En það sem væri brýnast í þessu er að það væri einhver hjúkrunarmenntaður hér, eins og til dæmis í Skaftafelli, og fengi aðstöðu og svo skiptir það líka máli að aðstaðan sé þannig að menn endist í starfinu því það skiptir miklu máli reynsla fólks í þessu sambandi, þannig að það endist í starfinu.“

Að sögn Gunnars voru haldnir rýnifundir eftir slysið í fyrradag þar sem þeir sem komu að ræða reynsluna og aðgerðirnar. Hann segir slíkt gera gagn.

„Já, það er mjög mikilvægt og svo líka fyrir framtíðina að fara yfir það sem betur má fara af því menn sjá alltaf eitthvað sem mætti hafa verið gert betur, þannig að það er gagnlegt og það er svo margt sem að kemur upp á svona stundum,“ segir Gunnar Sigurjónsson varaformaður björgunarsveitarinnar Kára í Öræfum.