Vanlíðan þingmanna hindri þá í vinnu

05.12.2018 - 17:04
Mynd:  / 
„Umræða eins og þarna fór fram, hún hækkar þröskuldinn fyrir suma hópa, fyrir konur, fyrir samkynhneigða, fyrir fólk með fötlun, fyrir alla sem ekki falla inn í tiltölulega þröngt karlmennskuhugtak, hækkar þröskuldinn fyrir þá að taka þátt í opinberri umræðu vegna þess að þetta er aukaálag fyrir þá sem tilheyra þessum hópum,“ segir Ragnhildur Helgadóttir, lagaprófessor við HR.

Ummæli þingmannanna sex á Klausturbar voru til umræðu á málþingi sem Rannsóknarstofa í jafnréttisfræðum stóð fyrir í dag. Bent var á áhrif ummælanna á lýðræði.

„Það er raunverulegur og áþreifanlegur ótti í Alþingishúsinu,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. Þingmenn geti ekki sinnt störfum sínum sem skyldi vegna vanlíðunar yfir Klausturmálinu. Það sé óviðunandi að þingmennirnir á Klausturbar hafi ekki axlað ábyrgð á gjörðum sínum. 

„Við finnum það sem erum þarna að það er erfiðara að vera á stað þar sem það þykir eðlilegt af þetta stórum hluta þingmanna að beita konur, fatlað og hinsegin fólk þessu ofbeldi. Óttinn er raunverulegur og hann er áþreifanlegur og hann er núna því miður partur af þinghúsinu. Þarna er það orðið bara partur af andrúmsloftinu vegna þess að viðkomandi þingmenn hafa ekki axlað ábyrgð á gjörðum sínum og bera í raun og veru ábyrgð á því að það er veruleg vanlíðan inni í húsinu sem þýðir það að þingmenn geta auðvitað ekki sinnt störfum sínum svo eðlilegt og það er óásættanlegt,“ segir Svandís.

„Mér finnst bara mjög óeðlilegt í rauninni þegar maður hugsar um það, verandi starfandi í stjórnmálum og vera orðin vön því í raun að vera kölluð alls kyns ónefnum með vísan til kynfæra og belja t.d., maður hefur heyrt þetta nokkuð oft og svo öll hin ónefnin sem ég vil helst ekki fara með hér, að það að maður kippir sér ekkert upp við þetta lengur og sé búin að sætta sig svolítið við þetta,“ segir Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Jafnframt var bent á að sexmenningarnir taki mikilvægar ákvarðanir sem þingmenn sem varði líf fatlaðs fólks.

„Þeir ráða því hvar við búum, hvort við búum á stofnunum eða getum búið heima hjá okkur, þeir ákvarða hvernig þjónustu við fáum, bæði heilbrigðis- og félagslega þjónustu. Þeir ákvarða kjör okkar þannig að það er undir þeim komið hvort við höfum til hnífs og skeiðar í hverjum mánuði. Þannig að fyrir fatlaðar konur er þetta lífsspursmál, hvaða viðhorf stjórnmálamenn hafa til okkar hóps,“ segir Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir, formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar.

Svandís segir það vera hluta af daglegu lífi kvenna að upplifa ótta í dimmu húsasundi og víðar.

„Og það er þyngra en táum taki að það geti verið partur af því andrúmslofti sem löggjafarsamkundan býr yfir,“ segir Svandís.