Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vanhugsuð ákvörðun að taka niður nektarlist

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Vanhugsuð ákvörðun að taka niður nektarlist

21.01.2019 - 09:37

Höfundar

„Það er svo skrýtið að stjórn bankans láti þetta ráða. Þrátt fyrir að þetta standi í siðareglum bankans þá er þetta bara ekki hugsað til enda. Það má ekki búa til þannig samfélag. Það þarf allavega stórkostlegri móðgun en þetta. Það er eitthvað skrýtið sem hangir á endanum sem maður sér ekki almennilega í,“ segir Guðmundur Oddur Magnússon, prófessor við Listaháskóla Íslands, í samtali við Morgunútvarp Rásar 2.

Eins og komið hefur fram hefur Seðlabankinn ákveðið að fjarlægja nektarverk eftir Gunnlaug Blöndal og koma fyrir í geymslu vegna kvörtunar starfsmanns sem var misboðið vegna nektarinnar. Sú ákvörðun var tekin að verkin yrðu ekki á almennum vinnusvæðum, skrifstofum yfirmanna eða á þeim svæðum þar sem starfsmenn vinna eða þurfa að leita með erindi. Ákvörðunin byggðist meðal annars á því að það væri tilfinning þess sem yrði fyrir áreitninni eða óþægindunum sem skilgreindi hana. Segir Guðmundur ljóst að eitthvað hafi ekki komið fram í málinu. „Svona gerir enginn með fullu viti.“

„Nekt í listum er náttúrulega út um allt og er stór þáttur af allri listasögu alheimsins. Það er ævafornt fyrirbæri að sýna mannslíkamann í allri sinni dýrð. Þetta er bara eitt form af myndlist,“ segir Guðmundur. „Í fyrsta lagi er anatómía, eða sem sagt það að teikna og mála mannslíkamann, hluti af klassískri menntun í öllum listaháskólum heimsins. Menn fara í módelteikningu með nöktum körlum og konum og þess vegna dýrum.“

Bendir hann á að nektin sé sýnd í flestum tegundum listarinnar. „Nekt er ekki bara í myndlist. Þetta er í biblíunni, þetta er í Íslendingasögunum og þetta er í öllum kvikmyndum. Þetta er út um allt. Hvernig í ósköpunum á allt í einu að fara að loka þessu,“ segir hann. „Þetta er svo skrýtið að þetta tekur engu tali. Þegar svona gerist er alltaf eitthvað sem hangir á endanum,“ segir hann.

Hluti af femínískri baráttu að frelsa geirvörtuna

Þá telur Guðmundur að nektin, og það að sýna geirvörtuna, sé hluti af femínískri baráttu. „Ekki fyrir alls löngu þá sýndi ung listakona, Borghildur Indriðadóttir, á Listahátíð ljósmyndir af ungum konum innan um vel klædda miðaldra karlmenn í jakkafötum til þess að ógna feðraveldinu. Það er partur af femínískri baráttu að frelsa geirvörtuna,“ segir hann. Vísar hann í sýninguna Demoncrazy sem var hluti af Listahátíð Reykjavíkur í fyrra. Á sýningunni mátti sjá berbrjósta ungar konur standa ákveðnar við málverk, ljósmyndir og styttur af karlmönnum í opinberum rýmum. 

Aðspurður hvort það eigi ekki að vera tilfinning þess sem verður fyrir áreitninni sem skilgreini hana segir hann að það gangi ekki. „Þetta gengur ekki. Þarna er eitthvað mikið að. Ef þetta væri karl þá væri það plebbinn sem ætti að ráða. Ég minni á það að eini maðurinn sem kvartaði undan þessum ljósmyndum í Alþingishúsinu var Sigmundur Davíð Gunnlaugsson“ segir hann en Sigmundur gagnrýndi harðlega ofangreinda sýningu.

„Þótt ég segi ekki að hann sé plebbi þá er hann sannarlega í plebbaflokki. Það er ákveðin tegund af mannfólki sem er svona. Á það að ráða? Á það að vera dagskrástjóri í okkar samfélagi? Viðkomandi þarf einfaldlega að leita sér hjálpar,“ segir Guðmundur.

Tengdar fréttir

Myndlist

Furða sig á ákvörðun Seðlabanka Íslands