Vandi millistéttarkvenna á framabraut

Mynd:  / 

Vandi millistéttarkvenna á framabraut

05.12.2018 - 11:23

Höfundar

„Ég held að þetta sé í fyrsta skipti sem fjallað er um á íslensku leiksviði þann vanda sem millistéttarkonur á framabraut geta lent í þegar þær eiga að fara að lifa upp til þeirrar ímyndar sem samfélagið hefur búið til um hina fullkomnu móður.“ María Kristjánsdóttir gagnrýnandi segir frá leikverkinu Rejúníon.

María Kristjánsdóttir skrifar:

Tjarnarbíó heldur áfram að kynna fyrir okkur ný íslensk leikrit og á eftir Griðastaði og Svartlyngi kemur nú fyrsta verk  ungrar konu Sóleyjar Ómarsdóttur sem nefnist upp á amerísku Rejúníon og er leikstýrt af Árna Kristjánssyni.

Myndhöfundurinn Fiona Rigler  byggir einfalt en afskaplega leikvænt svið fyrir verkið. Pallur sker leiksviðið, með eldhúsinnréttingu fyrir framan risastóran gemsa, tveir stólar, lítið borð skapa heimili ungra hjóna, til hliðar og neðar barnaherbergi með einni vöggu og ofar , aftar einnig til hliðar rými sem kemur í ljós að táknar Noreg. Fyrir framan pall og neðar plastkassar fullir af fötum. Nokkur mjó ljósarör afmarka pallinn og eru notuð skemmtilega í skiptingum

Inn á svið koma í byrjun ungu hjónin, Júlía og Börkur  beint af fæðingardeildinni með ungabarnið Þórdísi. Við fáum síðan að fylgjast með á tveimur ólíkum  tímaskeiðum í lífi þeirra, sem skarast sí og æ og af myndbandi, þeim áhrifum sem fæðingin hefur á ferlafræðinginn Júlíu og samband þeirra hjóna. En Júlía nær ekki að tengjast barninu og í tilraun sinni til að afbera einangrunina í fæðingarorlofinu og svefnlausar nætur, fer hún að leika hina fullkomnu eiginkonu og baka kökur fyrir Snapchat þar sem hún öðlast á svipstundu þúsundir fylgjenda. Um margt minnir bygging verksins fremur á klippitækni kvikmyndar en leikhús. Átökin í verkinu eru ekki á milli persónanna þriggja,  heldur eiga sér fyrst og fremst stað innra með aðalpersónunni Júlíu . Börkur eiginmaðurinn og vinkonan Hrefna helst tákn um það frelsi sem Júlíu finnst hún hafa verið svipt og skilningsleysi umhverfis á vanda hennar. Það að saga Júlíu er ekki sögð í línulegri frásögn heldur er ólíkum tímaskeiðum og Snapchati teflt hvert á móti öðru gerir hins vegar framvindu áhugaverðari og örvar einbeitingu áhorfandans. Ég held að þetta sé í fyrsta skipti sem fjallað er um á íslensku leiksviði þann vanda sem millistéttarkonur á framabraut geta lent í þegar þær eiga að fara að lifa upp til þeirrar ímyndar sem samfélagið hefur búið til um hina fullkomnu móður; sömuleiðis í fyrsta skipti þar sem fjallað er um einangrun og einmanaleika nútímamannsins og tilraun hans til að rjúfa þann vítahring gegnum samfélagsmiðla og notar höfundur þar miðlana á alveg nýjan hátt.

Það hvílir mikið á Sólveigu Guðmundsdóttur sem fer með hlutverk Júlíu. Og að venju verðum við aðdáendur hennar ekki fyrir vonbrigðum. Þó hefði mátt skerpa og vinna betur á nokkrum stöðum mikilvæga þætti í þróun hennar. Flestra þeirra er að leita í samskiptum hennar og vinkonunnar Hrefnu sem leikin er af Söru Mörtu Guðmundsdóttur sem því miður er hér ekki í réttu hlutverki. Hrefna þarf að vera frjáls og lifandi persónuleiki algjör andstæða við þau þrengsli sem Júlíu finnst hún búa við og í eðlilegri mótsögn við hið borgaralega umhverfi vinkonu sinnar. Ekki hjálpaði heldur búningurinn henni – nema aðstandendum sýningarinnar finnist í raun og veru að fólk sem hefur hugsjónir sé bæði hallærislegt og ferkantað?  Orri Huginn Ágústsson sem læknirinn Börkur er hinsvegar ákaflega trúverðugur sem ástríkur faðir  er reynir einnig að vera umhyggjusamur eiginmaður  þó takmarkaður sé af  því  skilningsleysis sem höfundur gefur honum.

Leikstjóri, myndhöfundur, myndbandshöfundurinn Ingi Bekk og höfundur hljóðmyndar Harpa Fönn Sigurjónsdóttur  hafa öll vandað til verka . Endirinn sem að vísu er frá höfundar hendi mjög brattur hefði þó mátt styrkja betur.

Verkið er sennilega of langt frá reynsluheimi félagskvenna  í Eflingu til þess að beinlínis sé hægt að mæla með þessari sýningu við þær. En aðrar leikhúsáhugakonur ættu að streyma í Tjarnarbíó til að fagna nýju efnilegu kvenleikskáldi sem liggur ýmislegt á hjarta. 

Tengdar fréttir

Leiklist

Á flótta undan móðurhlutverkinu